Hafliði Már skipasmiður við áttæringinn sem er ellefu metra langur og í raun nær því að vera að leng…
Hafliði Már skipasmiður við áttæringinn sem er ellefu metra langur og í raun nær því að vera að lengd tíærings. Ljósmynd: Visir.is/Sigurjón Ólason

Á sjómannadaginn 4. maí verður til sýnis í Grindavík nýr áttæringur sem líklega er fyrsta skipið af sama toga sem smíðað er á Íslandi frá árinu 1910. Í máttarviði skipsins var notað greni úr þjóðskóginum í Þjórsárdal og úr Heiðmörk.

Vísir segir frá þessu og á vef Vísis má sjá myndband þar sem rætt er við skipasmiðinn Hafliða Má Aðalsteinsson en einnig nemanda hans, Einar Jóhann Lárusson, sem mun vera yngsti tréskipasmiður landsins. Að sögn Hafliða Más eru máttarviðirnir, bönd, kjölur og stefni úr íslensku greni úr Þjórsárdal og Heiðmörk en svo var Einar Jóhann að vinna að siglutré sem gert er úr lerki úr Þjórsárdal. Hann segir gaman að geta notað íslenskan við í skipasmíðarnar. Í byrðing skipsins, sem er ellefu metra langt, var svo notuð finnsk fura en naglarnir komu frá Noregi.

Nánar má sjá um gripinn á vef Vísis en svo getur fólk líka séð skipið berum augum á hátíðinni Sjóaranum síkáta sem fram fer í Grindavík á sunnudag, sjómannadaginn.

Texti: Pétur Halldórsson