Timburbíll Tandrabrettis með farm af grisjunarviði úr þjóðskóginum á Höfða kominn í hlað við verksmi…
Timburbíll Tandrabrettis með farm af grisjunarviði úr þjóðskóginum á Höfða kominn í hlað við verksmiðjuna á Eskifirði þar sem viðarperlurnar eru framleiddar. Ljósmynd: Tandrabretti

Framleiðsla á viðarperlum úr íslensku lerki án íblöndunarefna gengur vel hjá Tandrabretti á Eskifirði. Nýlega var sóttur grisjunarviður úr þjóðskóginum á Höfða á Völlum til framleiðslunnar. Viðarperlur henta sem undirburður fyrir skepnur en einnig sem orkugjafi og nú eru nokkrar viðarkyndistöðvar komnar í notkun á Héraði sem nýta þessa innlendu orku.

Viðarperlur úr hreinu íslensku lerki. Ljósmynd: TandrabrettiTandrabretti hafa verið að þróa framleiðslu á vöru sem fyrirtækið markaðssetur sem viðarperlur undir vörumerkinu Ilmur. Algengt er líka að tala um viðarköggla enda er framleiðslan ekki ósvipuð gras- eða fóðurkögglaframleiðslu. Tryggja þarf rétta samsetningu og rakastig til að efnið loði saman og úr verði nýtanlegir kögglar eða perlur. Magnús Þorsteinsson hjá Tandrabretti segir að framleiðsla úr íslensku lerki gangi nú mjög vel og varan sé góð til sinna nota. Ekki þurfi að blanda neinu saman við lerkið til að fá góðar viðarperlur. Mikill kostur er að hægt sé að nota eingöngu trjábolina eins og þeir koma fyrir í framleiðsluna. Hér er myndband sem sýnir hvernig viðarperlurnar koma úr framleiðslutækjunum.

Nýlega var sóttur grisjunarviður í þjóðskóginn á Höfða á Völlum sem er fáeinum kílómetrum innan við Egilsstaði. Tandrabretti hafa komið sér upp sérstökum timburflutningabíl og þar á bæ er mikill áhugi á aukinni nýtingu á íslensku timbri, ekki síst grisjunarviði sem ekki nýtist sem sagtimbur. Tandrabretti framleiða nú þegar girðingarstaura úr íslensku lerki og fleira.

Viðarperlur henta vel sem undirburður fyrir skepnur í gripahúsum en einnig eru þær víða erlendis notaðar sem orkugjafi til húshitunar, einkum þar sem er kynding með sjálfvirkum mötunarbúnaði. Slíkur búnaður hentar vel hérlendis á svæðum þar sem ekki er hitaveita. Þannig er notaður innlendur orkugjafi, unninn úr efni sem ella væri látið liggja í skóginum og rotna. Slíkri kyndingu fylgir því engin viðbótarlosun á koltvísýringi enda er kolefnið tekið úr stöðugri hringrás skógarins.

Nú þegar eru nokkrar viðarkyndingar komnar upp á Héraði. Í Neskaupstað er 500 kílóvatta ketill sem framleitt hefur heitt vatn inn á fjarvarmaveituna á staðnum síðastliðið ár. Félagsheimilið Végarður í Fljótsdal þar sem hreppsskrifstofur Fljótsdalshrepps eru einnig til húsa er nú líka kynt með sama hætti og segir Magnús að vel hafi gengið með þessa kyndingu á báðum stöðunum. Í húsakynnum Móður Jarðar í Vallanesi sé líka verið að setja upp viðarperlukyndingu og þar verður varminn nýttur til húshitunar, ylræktar og þurrkunar á korni. Fyrirtækið sem setur upp og rekur kyndistöðvarnar heitir Tandraorka og er systurfyrirtæki Tandrabrettis sem framleiðir viðarperlurnar.

Texti: Pétur Halldórsson