Sérfræðingar Skógræktarinnar mátu í vikunni ástand gróðurs á þeim svæðum í Heiðmörk sem brunnu þar í eldi 4. maí. Lagðir verða út mælilfletir til að meta áhrif brunans og fylgjast með gróðurframvindu og skordýralífi á svæðinu. Til greina kemur að BS-nemendur í skógfræði við LbhÍ vinni rannsóknarverkefni í tengslum við þennan gróðureld.
Skógræktin á aðild að nýjum starfshópi um varnir gegn gróðureldum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sett á laggirnar. Hópurinn á að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum með forvörnum og fræðslu um gróðurelda. Reynslan af baráttu við gróðurelda, bæði hér á landi og erlendis, sýnir að til að ná árangri þurfi að samstilla alla sem koma að slökkvistarfi eða verða fyrir áhrifum af gróðureldum og beina þurfi forvörnum og fræðslu þvert á samfélagið.
Tíu manna hópur starfsmanna Skógræktarinnar gekk á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands, á uppstigningardag. Gangan á tindinn tók níu tíma og þaðan var gott útsýni í björtu og hægu veðri. Alls tók ferðin 16 klukkustundir.
Skógræktin hefur undirritað samning við One Tree Planted um gróðursetningu 180.000 trjáplantna í hlíðum Spákonufells ofan þéttbýlisins á Skagaströnd. Verkefninu lýkur haustið 2024 og í kjölfarið vex upp skógur sem meðal annars nýtist íbúum Skagastrandar, nágrönnum þeirra og gestum til útivistar.
Á vef Vinnumálastofnunar eru nú auglýst 24 sumarstörf hjá Skógræktinni vítt og breitt um landið. Þetta eru almenn störf við skógrækt og skógarumhirðu en einnig er óskað eftir garðyrkjufræðingi eða verkamanni í gróðrarstöð, aðstoðarmanni við forritun og gagnagrunnsvinnslu, aðstoðarfólki við rannsóknir, meðal annars á viðargæðum, og aðstoðarmanni við skógmælingar og úttektir. Umsóknarfrestur er til 25. maí.