Fulltrúar Skógræktarinnar á Hvannadalshnúki, glaðir og reifir, eftir níu tíma göngu á tindinn í sól …
Fulltrúar Skógræktarinnar á Hvannadalshnúki, glaðir og reifir, eftir níu tíma göngu á tindinn í sól og blíðu. Ljósmynd: Elísabet Atladóttir

Tíu manna hópur starfsmanna Skógræktarinnar gekk á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands, á uppstigningardag. Gangan á tindinn tók níu tíma og þaðan var gott útsýni í björtu og hægu veðri. Alls tók ferðin 16 klukkustundir.

Eftir langan undirbúning og eftirvæntingu undanfarna mánuði náðu tíu starfsmenn Skógræktarinnar, markmiðinu, að komast á hæsta fjall Íslands, Hvannadalshnúk (2.110m). Gengið var frá Sandfellsleið fimmtudaginn 13. maí. Upphaflega hafði reyndar verið áætlað að ganga upp 15. maí en vegna veðurspár var ferðinni flýtt um tvo daga. Hana bar því upp á sjálfan uppstigningardag sem var mjög viðeigandi.

Hópurinn lagði upp í gönguna kl. 3.40 á fimmtudagsmorgun og fékk bjart og hæglátt veður alla gönguna. Eftir þriggja tíma fjallgöngu var stigið á sjálfan Öræfajökul í 1.100m hæð. Upp frá því gengu allir fastir í línu það sem eftir var af göngunni. Skýja- og úrkomubakki sem spáð hafði verið að lenda myndi á hópnum um hádegi lét ekki sjá sig. Útsýnið á toppnum eftir níu tíma göngu var því „hrikalega flott“ eins og Elísabet Atladóttir leiðangursstjóri orðaði það. Hún segir að ef kvarta ætti undan einhverju hafi hitinn verið fullmikill á leiðinni upp síðustu metrana. „Við fengum enga hvíld frá sterkri sólinni nánast allan daginn,“ segir hún. „Færið og snjórinn var mjög gott til göngu og við þurftum aðeins að stíga yfir fjórar opnar sprungur á leiðinni og heildarferðatíminn var 16 tímar. Allir stóðu sig með eindæmum vel og nutu ferðarinnar í botn enda var dagurinn mjög vel heppnaður, bæði félagsskapur og aðstæður.“

Göngumenn voru auk Elísabetar Aðalheiður og Jón Óli, Valdimar, Björn Trausta, Kristján, Ólafur St, Hjördís Jónsdóttir, Christina Palmer (Stína), Jannick og Steph, auk þess sem Brook sá um leiðsögn í ferðinni ásamt Elísabetu. Af öllum Hnúksferðum sem Elísabet hefur farið segist hún aldrei hafa fengið jafngott veður og jafnskemmtilegan hóp til að ganga með. „Ég vil hrósa öllum fyrir afrekið og þakka fyrir samveruna, þetta er ekki auðveld ganga og allir kláruðu daginn með trompi og bros á vör,“ segir hún.

Meðfylgjandi myndir úr göngunni sendi Elísabet og að sjálfsögðu var fáni Skógræktarinnar hafður með á tindinn til að kóróna afrekið og undirstrika að Skógræktin sé komin á toppinn! Hluti hópsins gekk daginn eftir á Svínafellsjökul og nú þegar er farið að huga að annarri göngu á Hnúkinn að ári með hvatningu til annarra starfsmanna Skógræktarinnar að reima nú á sig gönguskóna og byrja að safna æfingaferðum fyrir þá göngu.

Heimild og myndir: Elísabet Atladóttir
Textavinnsla: Pétur Halldórsson