Fyrstu sjálfboðaliðarnir sem starfa munu á Þórsmerkursvæðinu á komandi vertíð komu í Langadal í dag og verða fyrstu verkefnin að kortleggja ástand gönguleiðanna og gera við skemmdir sem orðið hafa í miklum rigningum undanfarnar vikur. Mjög margar umsóknir bárust um sjálfboðastörf á Þórsmörk að þessu sinni og þurfti að vísa mörgum frá.
Starfshópur um umbætur og hagræðingu vegna girðinga í eigu hins opinbera hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu þar sem birtar eru tölur um umfang girðinga á vegum opinberra aðila, stofnana og sveitarfélaga. Heildarkostnaður opinberra aðila við girðingar er talinn vera að minnsta kosti um 360 milljónir króna á hverju ári en líklega er kostnaðurinn vanáætlaður. Starfshópurinn vill að kannaður verði ávinningurinn af afgirtum beitarhólfum.
Notendur rafræns dagatals Skógræktarinnar geta nú skipt um skjámynd á tölvum sínum og sett inn dagatal maímánaðar. Á því er ljósmynd Atla Arnarsonar ljósmyndara af sveppnum gullskjálfanda.