Séð yfir yngra svæðið sem brann í Heiðmörk 4. maí. Gróður er þegar farinn að taka við sér og munu sé…
Séð yfir yngra svæðið sem brann í Heiðmörk 4. maí. Gróður er þegar farinn að taka við sér og munu sérfræðingar Skógræktarinnar rannsaka gróðurframvindu, skordýralíf og sjálfsendurnýjun skógarins á mæliflötum sem settir verða út á svæðinu. Ljósmynd: Brynja Hrafnkelsdóttir

Sérfræðingar Skógræktarinnar mátu í vikunni ástand gróðurs á þeim svæðum í Heiðmörk sem brunnu þar í eldi 4. maí. Lagðir verða út mælilfletir til að meta áhrif brunans og fylgjast með gróðurframvindu og skordýralífi á svæðinu. Til greina kemur að BS-nemendur í skógfræði við LbhÍ vinni rannsóknarverkefni í tengslum við þennan gróðureld.

Á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur segir að nú þegar sé gróður farinn að skjóta upp kollinum á brunna svæðinu, svo sem gras, fíflar og lúpína. Ásamt starfsfólki Skógræktarinnar á Vesturlandi voru þrír sérfræðingar á rannsóknasviði stofnunarinnar með í för miðvikudaginn 26. maí, þau Bjarki Þór Kjartansson, Brynja Hrafnkelsdóttir og Jóhanna Bergrúnar Ólafsdóttir.

Ætlunin er að leggja út mælifleti á svæðinu til að meta áhrif brunans og fylgjast svo með framvindunni. Fylgst verður með trjágróðri, almennu gróðurfari og skordýralífi. Þá eru uppi hugmyndir um að meta hugsanlegar breytingar á jarðvegsöndun, hvort gróðureldurinn hafi drepið örverur í jarðveginum og þannig haft áhrif á rotnun.

Í frétt Skógræktarfélags Reykjavíkur segir Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur hjá Skógræktinni, að verkefnið sé gríðarlega áhugavert og mikilvægt fyrir framtíðina, að leggja megi einhvers konar mat á áhrif gróðurelds á ungan skóg sem þennan. Til greina kemur að BS-nemendur í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands vinni rannsóknarverkefni um gróðureldinn og áhrif hans.

Trén ekki hólpin þótt þau nái að laufgast

Víðast hvar á svæðinu sem gróðureldurinn fór yfir 4. maí er gróður nú farinn að skjóta upp kollinum. Alls fór eldurinn yfir um 61 hektara lands. Þar af var ræktaður skógur á 46 hekturum og náttúrulegt birki á 5,5 hekturum. Á meðfylgjandi myndum má sjá að lúpínan er til dæmis að koma upp af krafti úr sviðnum sverðinum. Eldurinn virðist því ekki hafa haft áhrif á frjósemi jarðvegsins og hitinn sem myndast þegar sólin skín á svartan svörðinn hjálpar örugglega gróðrinum af stað.

Trén á svæðinu eru líka tekin að laufgast en eftir er að koma í ljós hversu mörg þeirra munu laufgast á ný, hvað þá að þau sem eitthvað laufgast nái að lifa til frambúðar. Mögulega hefur eldurinn eyðilagt börk og vaxtarlag margra trjánna og þá geta þau ekki flutt sykrur og önnur efni niður í ræturnar. Með þessu verður fylgst og framvindan skráð á væntanlegum mæliflötum á brunasvæðinu í Heiðmörk.

Á næstu vikum verður ákveðið hvaða tilraunir verða gerðar á svæðinu og jafnframt hvort strax í sumar verður ráðist í gróðursetningu á svæðinu. Auður KJartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, segir á vef félagsins að vel geti verið að beðið verði með gróðursetningu á svæðinu til að betur megi rannsaka sjálfgræðslu trjátegunda á svæðinu eftir gróðureld. Hitinn af gróðureldinum hafi orðið til þess að margir könglar opnuðust og ef til vill verði óvenjulega mikið af nýgræðingi á svæðinu áður en langt um líður. Þá kemur fram í fréttinni á vef félagsins að Náttúrufræðistofnun Íslands gerði úttekt áhrifnum brunans á gróður, smádýralíf, fugla og spendýr fyrr í mánuðinum.

Hættan enn til staðar

Eldhætta er enn til staðar víða um land, í Heiðmörk eins og annars staðar. Sú takmarkaða úrkoma sem fallið hefur á Heiðmörk að undanförnu hefur að vísu náð að binda talsvert það öskuryk sem lá yfir svæðinu og þyrlaðist upp eftir brunann. Ryk er því mun minna en var fyrstu dagana eftir brunann. Auður Kjartansdóttir segir að rigningin um helgina hafi verið kaflaskipt og víða sé því enn mikill þurrkur í Heiðmörk og þar með eldhætta.

Eins og sjá má á vef Almannavarna er enn hættustig í gangi vegna gróðurelda frá höfuðborgarsvæðinu vestur og norður um land, allt að Tröllaskaga. Á Suðurlandi er óvissustig og svo aftur hættustig í Skaftafellssýslum. Þá er gróður þurr einnig við Eyjafjörð og víðar þótt ekki hafi verið lýst yfir hættu þar.

Fólk er því eindregið hvatt til að kveikja ekki eld nokkurs staðar úti í náttúrunni, hvorki til að grilla né reykja. Almennt þarf líka að fara mjög varlega með allt sem getur mögulega kveikt eld, til dæmis tæki sem gefa frá sér mikinn hita eða neista. Almannavarnir hvetja til dæmis sumarhúsaeigendur á hættusvæðum til að gæta sérstaklega að þessum atriðum.

Frekari upplýsingar og myndir má finna í frétt á vef Skógræktarfélags Reykjavíkur, heidmork.is. Auði Kjartansdóttur og Gústav Jarli Viðarssyni er þakkað fyrir góða leiðsögn um brunasvæðið og gott samstarf um undirbúning á komandi rannsóknarverkefnum.

Frétt: Pétur Halldórsson
Heimild: heidmork.is