Séð til Spákonufells. Þegar hefur verið gróðursett í um 25 hektara af þeim 140 hekturum sem skógrækt…
Séð til Spákonufells. Þegar hefur verið gróðursett í um 25 hektara af þeim 140 hekturum sem skógræktarsvæðið nær yfir. Skógur verður ræktaður á a.m.k. 80 hekturum til viðbótar. Ljósmynd: Benjamín Örn Davíðsson

Skógræktin hefur undirritað samning við One Tree Planted um gróðursetningu 180.000 trjáplantna í hlíðum Spákonufells ofan þéttbýlisins á Skagaströnd. Verkefninu lýkur haustið 2024 og í kjölfarið vex upp skógur sem meðal annars nýtist íbúum Skagastrandar, nágrönnum þeirra og gestum til útivistar.

Gróðursetningaráætlun svæðisins í Spákonufelli. Lögð verður áhersla á birki, sitkagreni og alaskaösp til að byrja með en þegar skógurinn fer að mynda skjól gefst færi á ræktun fleiri tegunda til að auka fjölbreytileikann. Kort: Benjamín Örn DavíðssonSamningurinn var undirritaður 30. apríl og í honum felst að unnið verður að gróðursetningu næstu þrjú árin á um 140 hektara landi í neðanverðum hlíðum Spákonufells. Landið er í eigu Sveitarfélagsins Skagastrandar og þar hefur þegar verið gróðursett í um 25 hektara af viðkomandi svæði.

Í samningnum við One Tree Planted er gert ráð fyrir að skógurinn verði blandskógur með birki, sitkagreni og alaskaösp en aðrar tegundir koma síður til greina í upphafi, enda eru sumrin svöl og vetrarveður geta orðið hörð. Hluta svæðisins þarf að jarðvinna fyrir gróðursetningu. Þegar fram líða stundir og skógurinn fer að mynda skjól má auka fjölbreytnina með fleiri trjátegundum sem gera meiri kröfur en stuðla að aukinni líffjölbreytni á svæðinu.

Eina skilyrðið að skógurinn fái að standa

Framlag One Tree Planted til verkefnisins nemur um 150.000 Bandaríkjadollurum sem er hátt í nítján milljónir íslenskra króna. Samningurinn er án skuldbindinga annarra en þeirra að skóginum verði komið upp og honum viðhaldið til framtíðar. Skila skal framvinduskýrslu þegar verkið verður hálfnað, aftur þegar gróðursetningu er lokið og loks lokaúttekt ári síðar. Gróðursetning hefst vorið 2022.

One Tree Planted hefur þegar gert samning við Skógræktina um sambærilegt verkefni að Ormsstöðum í Breiðdal. Þetta félag býður almenningi, félögum og fyrirtækjum um allan heim að kaupa tré til gróðursetningar á samningssvæðum þess víða um lönd. Mikill áhugi reyndist vera á Ormsstaðaverkefninu á vef One Tree Planted og hefur félagið því sýnt áhuga á frekara samstarfi við Skógræktina. Markmið félagsins er að auka skóglendi á jörðinni og lögð er áhersla á verkefni sem hafa samfélagslegan ávinning á viðkomandi svæði, auk jákvæðra áhrifa á umhverfi og loftslag.

Frumkvæði heimafólks

Forsaga verkefnisins í hlíðum Spákonufells er sú að á síðasta ári var undirritaður samstarfssamningur milli Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skógræktarinnar um skógrækt á svæðinu. Skógræktarsvæðið teygir sig frá Skagastrandarvegi upp að Urðarhólum og hlykkjast í hlíðinni inn að gamla skíðasvæðinu og inn í Hrafndal. Það teygir sig svo aftur í norður fyrir neðan gamla skíðaskálann, norður fyrir malarnámurnar og lokar hringnum við Skagastrandarveg. Heimafólk óskaði eftir samstarfi við Skógræktina um skógrækt á svæðinu til eflingar samfélagi og umhverfi.

Útivistarskógur fyrir framtíðina

Jarðvinnsla er nauðsynleg til að koma plöntum á legg í háum og þéttum gróðri. Jarðunnið verður með TTS-herfi sem gerir grunnar rásir í jarðvegsþekjuna og kemur jarðefnahringrás af stað, hækkar jarðvegshita og minnkar samkeppni við annan gróður sem aftur eykur vöxt og lifun trjánna. Jarðvinnslurásir hverfa í landslagið að jafnaði á 3-5 árum. Áætlað er að jarðvinna 65 hektara.

Á skógræktarsvæðinu verður lagt stígakerfi sem auðveldar vinnu vegna framkvæmda við skógræktina auk þess að fjölga útivistarmöguleikum. Í skógræktaráætlun fyrir svæðið er gert ráð fyrir að lagðir verði samtals yfir 11 km af stígum. Gönguleiðum fjölgar verulega og verða þær miserfiðar og mislangar þannig að þær henti mismunandi hópum. Þegar skógurinn vex úr grasi skapast skjól sem eykur veðursæld í og við skógræktarsvæðið auk kolefnisbindingar, framtíðarnytja og annarra verðmæta sem fylgja skógrækt.

Texti: Pétur Halldórsson