Náttúran, garðar og útivistarsvæði eru umfjöllunarefni norrænnar ráðstefnu sem hefst í Reykjavík miðvikudaginn 15. ágúst. Fjallað verður um samspil manns og náttúru, græn svæði í þéttbýli og sjálfbærni, það sem efst er á baugi á Norðurlöndum í þessum efnum og fleira.
Skjólbeltarækt leikur stórt hlutverk víða um heim í jarðvegsvernd, ræktunaröryggi matvælaframleiðslu og bættum búsetuskilyrðum, auk margþættra hlutverka við styrkingu vistkerfa. Risavaxin skjólbeltaverkefni hafa verið sett á laggirnar víða. Skógfræðingarnir Björn B. Jónsson og Hallur Björgvinsson skrifa fróðlega grein í Ársrit Skógræktarinnar 2017 um skjólbelti, sögu skjólbeltaræktar á Íslandi, kosti skjólbelta og fleira.
Í ágúst 1912 birtist í blaðinu Suðurlandi frásögn eftir Agner F. Kofoed-Hansen skógræktarstjóra þar sem hann lýsir för sinni á hestum um Vatnajökulsveg frá Héraði suður í Þjórsárdal. Skógræktarstjóri hafði þá heimsótt bæði Vaglaskóg og Hallormsstaðaskóg. Sagan er birt hér til að minnast þess að í ár eru 110 ár liðin frá því að Skógræktin tók til starfa.
Bosníufuran Italus er elsta tré sem vitað er um í Evrópu. Með samspili árhringjarannsókna, rannsókna á rótum og geislakolsmælingum hafa vísindamenn reiknað út að tréð sé líklega 1.230 ára gamalt. Það hafi því vaxið upp af fræi tæpri öld áður en Ingólfur Arnarson nam land á Íslandi.
Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda, hefur verið skipaður í nefnd sem fengið hefur það hlutverk að vinna að umhverfisstefnu íslensks landbúnaðar.