Nefnd sem mótar umhverfisstefnu landbúðarins á að taka á ýmsum þáttum, meðal annars kolefnislosun og…
Nefnd sem mótar umhverfisstefnu landbúðarins á að taka á ýmsum þáttum, meðal annars kolefnislosun og kolefnisbindingu. Myndin snertir fréttina ekki beint en hún er af Hofi í Öræfum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda, hefur verið skipaður í nefnd sem fengið hefur það hlutverk að vinna að umhverfisstefnu íslensks landbúnaðar.

Umhverfisstefnunni er ætlað að vera leiðarljós í umhverfismálum fyrir einstaka bændur, búgreinar og landbúnaðinn í heild. Stefnuna á að nýta við endurskoðun búvörusamninga og við gerð framtíðarsamninga bænda við ríkið.

Ályktað var á síðasta búnaðarþingi um að greina skyldi stöðu umhverfismála í landbúnaði á Íslandi og móta umhverfisstefnu með settum markmiðum til næstu ára. Stjórn Bændasamtakanna hefur nú skipað nefnd og falið henni að vinna að umhverfisstefnunni. Stjórnin samþykkti samhljóða að skipa formann nefndarinnar Ingvar Björnsson, bónda á Hólabaki Vatnsdal og fyrrverandi ráðunaut. Með honum í stjórninni verða:

Katrín María Andrésdóttir, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda
Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda
Hlynur Gauti Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka skógarbænda

Við gerð umhverfisstefnu fyrir landbúnaðinn verður meðal hugað að losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði, hvort sem það er vélanotkun og flutningar, orkunotkun, eða losun frá landbúnaðarlandi og búpeningi. Landnýting verður einnig skoðuð ásamt skógrækt og landgræðslu.

Texti: Pétur Halldórsson