Náttúran, garðar og útivistarsvæði eru umfjöllunarefni norrænnar ráðstefnu sem hefst í Reykjavík miðvikudaginn 15. ágúst. Fjallað verður um samspil manns og náttúru, græn svæði í þéttbýli og sjálfbærni, það sem efst er á baugi á Norðurlöndum í þessum efnum og fleira.

Náttúra og garðar 2018 er yfirskrift ráðstefnunnar sem fer fram í Kaldalóni í Hörpu. Ráðstefna þessi hefur verið haldin fjórða hvert ár á Norðurlöndunum undir mismunandi formerkjum og fyrir henni standa systursamtök SAMGUS í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.

Ráðstefnan fjallar að þessu sinni um náttúruna, garða og útivistarsvæði, aðallega út frá íslensku sjónarhorni. Fyrirlestrar fara fram fyrir hádegi miðvikudag til föstudags en eftir hádegi fyrri tvo dagana verður farið í skoðunarferðir sem tengjast þema dagsins.

  • Fyrsta daginn, miðvikudag, verður áherslan lögð á landið og náttúruna, samspil manns og náttúru, t.d. hvernig við bregðumst við þegar náttúruöflin minna á sig með ofurkrafti og hvernig hegðun okkar getur haft áhrif og eyðilagt náttúrusvæði og hvernig við reynum að bregðast við því. Aukin aðsókn ferðamanna hefur hér mikil áhrif.
  • Á fimmtudag verður áherslan lögð á þéttbýlið og hið græna manngerða umhverfi sem þar er að finna. M.a. verður fjallað um málefni grænu svæðanna, velt upp spurningum um sjálfbært umhverfi o.fl.
  • Síðasta daginn, föstudag, verður horft til Norðurlandanna, hvað þar sé efst á baugi hvað varðar náttúru, garða og önnur umhverfismál.

Frekari upplýsingar er að nálgast á vef ráðstefnunnar hjá formanni SAMGUS, Berglindi Ásgeirsdóttur (berglind.asgeirsdottir@reykjanesbaer.is eða sími 840-1556)