Þetta aldna bosníufurutré sem stendur í um tvö þúsund metra hæð á Pollino-hásléttunni á Suður-Ítalíu…
Þetta aldna bosníufurutré sem stendur í um tvö þúsund metra hæð á Pollino-hásléttunni á Suður-Ítalíu er elsta tré sem vitað er um í Evrópu, 1.230 ára gamalt. Aldursgreiningin fór fram með nýstárlegu samspili trjáhringjafræði og geislakolsgreiningar. Ljósmynd: Gianluca Piovesan/Ecology

Bosníufuran Italus er elsta tré sem vitað er um í Evrópu. Með samspili árhringjarannsókna, rannsókna á rótum og geislakolsmælingum hafa vísindamenn reiknað út að tréð sé líklega 1.230 ára gamalt. Það hafi því vaxið upp af fræi tæpri öld áður en Ingólfur Arnarson nam land á Íslandi.

Fjallað er um leitina að elsta tré Evrópu í grein sem birtist í tímaritinu Ecology í maí í vor. Aðalhöfundur hennar er Gianluca Piovesan, skógfræðiprófessor við Tuscia-háskólann í  Viterbo-héraði um miðbik Miðjarðarhafsstrandar Ítalíu. Þar stýrir hann rannsóknum á sviði viðarfræði. Meðhöfundar hans eru níu talsins.

Bosníufururnar í Pollino-þjóðgarðinum

Ekki er alltaf hlaupið að því að aldursgreina mjög gömul tré enda alls ekki víst að mögulegt sé að ná sýnum af árhringjum þeirra frá upphafi enda er innsti kjarni þeirra gjarnan farinn að fúna burt. Á síðasta ári greindu vísindamenn frá því að elsta tré í Evrópu væri líklega Bosníufura í Grikklandi sem kölluð er Adonis eftir dauðlegum elskhuga Afródítu í grísku goðafræðinni. Það tré reyndist hafa að minnsta kosti 1.075 árhringi.

Í leit að enn eldri trjám sömu tegundar hafa sjónir manna beinst að Pollino-þjóðgarðinum sem nær yfir um tvö þúsund ferkílómetra svæði á Suður-Ítalíu, meðal annars til hálendis sunnanverðra Appennínafjalla. Þar hafa vísindamenn litið hýru auga til nokkurra furutrjáa sem vaxa í um 2.000 metra hæð og eru talin hafa náð þúsund ára aldri.

Kenndur við goðsögulegan kóng

Trénu sem álitið var elst þessara fornu trjáa var gefið gælunafnið Italus eftir þeim goðsögulega konungi sem Ítalía dregur heiti sitt af. Bosníufuran Italus hefur dæmigert útlit og vaxtarlag ævafornra barrtrjáa. Nakinn og líflaus stofn hennar stendur upp úr, barkflettur að mestu, en út úr honum neðanverðum nokkrir lifandi greinabrúskar. Ummál trésins í brjósthæð er 160 sentímetrar og það stendur í brattri, klettóttri hlíð með litlum sem engum undirgróðri. Víða skín í berar klappirnar sem eru úr dólómíti. Langt bil er líka milli trjánna og allt gerir þetta að verkum að lítil hætta er á gróðureldum á svæðinu. Litlu neðar í fjallahlíðunum eru efri mörk villtra beykiskóga þar sem vaxa allt að 500 ára gömul beykitré.

Til að aldursgreina Italus gamla voru teknir 5 millímetra borkjarnar úr stofninum neðanverðum en einnig úr rótum trésins. Stofninn reyndist vera holur innst og því dugðu borkjarnar úr honum ekki til fullrar aldursgreiningar. En af því að tréð stendur í miklum halla og jarðvegur hefur fokið og skolast burt frá rótum þess var talið mögulegt að komast nærri frumvexti rótarkerfisins með því að taka borkjarna úr rótum einnig.

Geislakols- og áhringjagreiningar tvinnaðar saman

Rannsóknarhópurinn þróaði sérstaka þrepaskipta aldursgreiningaraðferð til að geta greint aldur hins hola trés með vísindalegum hætti. Þar eru árhringjarannsóknir tvinnaðar saman við geislakolsrannsóknir svo stilla megi saman árhringi úr stofni og árlegan vöxt úr rótarsýnum. Þannig er líklegra að takast megi að búa til samfellt tímatal svo gamalla trjáa.

Fyrsta kolefnisgreiningin gaf til kynna að elsti vaxtarhringurinn væri um það bil frá árinu 955. Eins og algengt er að sjá í eldgömlum trjám á einangruðum stöðum eru vaxtarlögin tiltölulega þykk fyrstu árin en svo þynnast þau hratt og við tekur langur kafli með mjög mjóum árhringjum. Hæg viðarmyndunin helgast af hörðum vaxtarskilyrðum sem aftur á móti geta orðið til þess að trén nái mjög háum aldri, eins og broddfururnar (Pinus longaeva) í Hvítufjöllum í Kaliforníu eru líka gott dæmi um.

Slegið var á mögulegan aldur bosníufurunnar Italusar  út frá lengd borkjarnans miðað við þykkt stofnsins þar sem borað var. Niðurstaðan var að frá kjarna og út að elsta aldursgreinda árhringnum í borkjarnanum vantaði um það bil 205 til 227 árhringi þar sem viðurinn hafði fúnað burt. Samkvæmt því gæti tréð hafa vaxið upp af fræi á árabilinu 727-749 og þá væri það 1.269-1.291 árs gamalt nú, árið 2018.

En vísindafólkinu dugði ekki að áætla aldurinn með svo ónákvæmum hætti. Nákvæmari skyldi aldursgreiningin vera. Til þess skyldi rannsaka vaxtarhringi rótanna betur enda náðust borsýni úr rótum frá tímabilinu sem vantaði aftan við árhringina úr stofni trésins. Leitað var að samsvörunum í því vaxtarmynstri sem sást á rótunum og því sem sást í borkjarna úr stofninum. Skyndileg vaxtarminnkun var greinileg í árhringjum stofnsins á árabilinu 1016 til 1032 en ekki gekk vel að finna samsvarandi mynstur í rótarsýnunum. Sú óáran sem olli því að vöxturinn minnkaði á þessu tímabili gæti hafa spillt samræminu milli árhringja í rótum og árhringja í stofni sem gerði torvelt að stilla saman árhringi í stofni og árhringi í rótum. Hefði það verið mögulegt hefði hópurinn samstundis getað neglt niður ákveðið ártal í elstu árhringjunum sem náðust úr stofninum, fundið sama ártal í rótarsýnunum og notað rótarsýnin til að rekja sig allt til upphafsins. En þetta reyndist ekki unnt og enn ítarlegri rannsókna var þörf. Vandamálið leysti vísindahópurinn með nýstárlegu samspili trjáhringjarannsókna og aldursgreiningar með geislakolsaðferðinni.

Með geislakolsgreiningum var hægt að framkalla innra tímatal rótarsýnanna án þess þó að það yrði neglt niður á tiltekið árabil enda fylgja ákveðin vikmörk geislakolsgreiningum. En með því að keyra saman nokkrar geislakolsgreiningar, nokkuð sem kallað er á ensku „wiggle matching“, varð greiningin nægilega nákvæm til að auðveldara yrði að finna árhringjaraðir í rótarsýnum sem samsvöruðu árhringjaröðum í borkjörnum úr stofni. Nákvæmlega er vitað frá hvaða ári hver árhringur úr stofninum er, enda er þá einfaldlega byrjað á árhring þessa árs og talið allt aftur til elsta varðveitta árhringsins. Þegar sama mynstur er fundið í árhringjum róta og stofns er komin nákvæm aldursgreining rótarsýnanna. Þá er einfaldlega hægt að halda áfram að telja ártölin eftir árhringjum rótanna. Og sú talning færði aldursgreininguna á Italusi aftur um 166 ár frá því sem áður hafði verið áætlað eða til ársins 789.

1.230 ára og sýnir aukinn vöxt

Niðurstaðan er því sú að bosníufuran Italus sé líklega 1.230 ára gömul á þessu ári og þar með elsta bosníufuran sem vitað er um á Pollino-hásléttunni. Athuganir vísindafólksins benda til að þessi tré geti orðið að minnsta kosti 1.300 ára gömul. Og það sem meira er, Italus og aðrar bosníufurur í nágrenninu hafa sýnt lítillega aukinn vöxt undanfarin ár þannig að elsta tré Evrópu sem vitað er um virðist síður en svo vera í dauðateygjunum. Það gæti allt eins átt eftir að ná 1.300 ára aldri. Með þeim greininaraðferðum sem hér hefur verið lýst er ekki útilokað að finna megi álíka gamlar eða jafnvel enn eldri bosníufurur, til dæmis í Grikklandi eða annars staðar á útbreiðslusvæði tegundarinnar.

Hinn aukni vöxtur þessara öldnu trjáa hefur ekki verið skýrður og raunar er hann í mótsögn við það sem venjulega er talið gerast í svo gömlum trjám. Við það bætist að  ýmis vistkerfi við Miðjarðarhaf hafa átt í vök að verjast undanfarin ár vegna loftslagsbreytinga með minnkandi vexti og jafnvel trjádauða. Annað virðist þó vera upp á teningnum hjá bosníufurunni í 2.000 metra hæð á Pollino-hásléttunni. Mögulega njóta þessi tré einfaldlega góðs af eilítið mildara loftslagi. Þau búa enn við nægan raka og mögulega geta þau líka nýtt sér aukið hlutfall koltvísýrings í loftinu. Einnig getur verið að breytingar hafi orðið á dreifingu mengunarefna. Allt þetta þyrfti að rannsaka nánar eins og bent er á í greininni í vísindaritinu Ecology.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson