Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson, skógarbændur í Múlakoti Fljótshlíð, skrifa skemmtilega sögu í Bændablaðið 2. ágúst af því hvernig viður úr gömlum reynitrjám í Múlakoti varð að fallegum húsgögnum fyrir garðinn í Múlakoti með góðu samstarfi við skógarbændur á Giljalandi Skaftártungum og Skúla Jónsson, smið frá Þykkvabæ.
Breytingar hafa nú orðið á útgáfumálum Landssamtaka skógareigenda. Tímaritið Við skógareigendur kemur ekki lengur út heldur skrifa skógarbændur nú reglulega í Bændablaðið um ýmis skógarmálefni. Fyrsta greinin birtist í blaðinu 2. ágúst og þar skrifar Björn Halldórsson, sauðfjár- og skógarbóndi á Valþjófsstöðum í Núpasveit um sauðfjárbændur, samningana og skuldina við landið. Einnig er í sama tölublaði grein um samvinnu sunnlenskra skógarbænda um viðarnytjar.
Gróðursetning í Hekluskógum hefur gengið vel í sumar þrátt fyrir rysjótta tíð. Á vef verkefnisins kemur fram að gróðursett hafi verið í vor og fram á sumar og aftur verði tekið til við gróðursetningu í lok ágústmánaðar. Alls er stefnt að gróðursetningu rúmlega 300 þúsund birkiplantna í ár á athafnasvæði Hekluskóga.
Bændablaðið ræðir við Guðríði Baldvinsdóttur, skógfræðing og sauðfjárbónda Lóni Kelduhverfi, sem kannaði í meistaraverkefni sínu við LbhÍ áhrif sauðfjárbeitar á ungan lerkiskóg. Hún segir að skógarskjólið geri búpeningnum gott og að skógrækt ætti að vera hluti af öllum búrekstri.
Tugir þúsunda trjáplantna hafa verið gróðursettir í sjálfboðavinnu á Hafnarsandi í Ölfusi fyrir tilstuðlan Skógræktar- og uppgræðslufélags Þorlákshafnar og Ölfuss. Félagið boðar fólk til gróðursetningardaga á hverju sumri og þrír slíkir hafa verið skipulagðir í sumar. Vel var mætt til þess fyrsta 17. júlí.