„Við erum rík þjóð og nú ríkir góðæri. Það er einmitt á slíkum tímum sem fjárfesta á í innviðum, helst varanlegum innviðum sem gefa fjölbreyttan ágóða í framtíðinni og gera okkur betur kleift að takast á við erfiðari tíma þegar þeir koma. Skógar eru meðal þeirra innviða.“ Þetta skrifar Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í grein sem birtist í nýútkomnu jólablaði Bændablaðsins.
Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, og Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, skrifa grein sem birtist á Vísi þar sem þeir svara skrifum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um loftslagsmál sem birtist í Fréttablaðinu 14. desember. Þeir benda á að skógar hér á landi bindi kolefni bæði hraðar og í meira magni en áður var talið. Ekki sé rétt hjá Þorgerði að áhrif bindingar í skógi komi fram á löngum tíma og dugi skammt í því tímahraki sem fram undan er.
Föstudaginn 15. desember flytur Thorunn Helgason, doktor í líffræði við háskólann í York, hádegiserindi í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, um landbúnað, jarðveg og framleiðni þar sem hún spyr hver sé framtíð örverulífs í jarðvegi.
Rannsóknir sýna að aukin skógrækt, hvort sem hún er á Íslandi eða annars staðar í heiminum, er ein besta landnýtingaraðferðin til að binda kolefni úr andrúmslofti. Þetta segir Írinn Eugene Hendrick sem talaði á kolefnisráðstefnunni sem fram fór í Bændahöllinni 5. desember.  Írar leggi ríka áherslu á skógrækt um þessar mundir og að auka skógarþekju landsins, meðal annars til að auka hlut landsins í bindingu kolefnis úr andrúmslofti.
Skógræktarstjóri hefur áhyggjur af plöntuframleiðslu eftir að ákveðið var að hætta rekstri gróðrarstöðvarinnar Barra vegna samdráttar í skógrækt. Hann segist í samtali við Ríkisútvarpið hafa talað fyrir daufum eyrum ráðamanna um aukna kolefnisbindingu í skógi.