„Auðvitað viljum við hjá Skógræktinni efla og auka skógrækt en það er ekkert sem að bendir til þess …
„Auðvitað viljum við hjá Skógræktinni efla og auka skógrækt en það er ekkert sem að bendir til þess að það sé að gerast neitt í þá áttina hjá ríkinu,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.

Skógræktarstjóri bregst við fréttum af falli Barra

Skógræktarstjóri hefur áhyggjur af plöntu­framleiðslu eftir að ákveðið var að hætta rekstri gróðrarstöðvarinnar Barra vegna samdráttar í skógrækt. Hann segist í samtali við Ríkisútvarpið hafa talað fyrir daufum eyrum ráðamanna um aukna kolefnisbindingu í skógi.

Frétt Rúnars Snæs Reynissonar, frétta­manns á Austurlandi, birtist í sjónvarps­fréttum í gærkvöld. Fréttin er á þessa leið:

Í fyrra voru gróðursettar rúmar 3 milljónir skógarplantna, aðeins um helmingur þess sem var fyrir áratug. Barri gafst upp á biðinni eftir aukinni skógrækt, lokar í sumar og þá eru aðeins tvær stöðvar eftir sem framleiða skógarplöntur. Þetta setur Skóg­ræktina í vanda en engin tilboð bárust í að framleiða sumar tegundir til gróðursetningar á næstu árum. Ríkið hefur aukið tekjur af kolefnisgjaldi sem lagt er á bíleigendur en ekki notað féð í að auka kolefnisbindingu með skógrækt sem neinu nemur. „Auðvitað viljum við hjá Skógræktinni efla og auka skógrækt en það er ekkert sem að bendir til þess að það sé að gerast neitt í þá áttina hjá ríkinu,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.

Samkvæmt mælingum Skógræktarinnar binda íslenskir skógar að jafnaði 7,7 tonn af koltvísýringi á hektara á ári. Hægt er að hækka þá tölu með tegunda- og landvali, ösp í frjósömu landi getur bundið 20 tonn á hektara. Á Íslandi eru 50.000 hektarar af ræktuðum skógi en þeir eru 0,5% landsins. Skógræktin telur rými fyrir meira án þess að keppa við aðra landnotkun og timburauðlind myndi bíða næstu kynslóðar þegar skógurinn er vaxinn. „Á meðan eru þeir að binda kolefni og skógrækt er besta leiðin sem við höfum til að binda kolefni hér á Íslandi. Þessi skógur hér á Höfða á Héraði sem er 20 ára gamall hefur bundið um 160 tonn af koltvísýringi á hektara lands. Og á eftir að binda miklu miklu meira á næstu áratugum,“ segir Þröstur.