Halldór Sverrisson, sérfræðingur á Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá, telur að kalda vorið í ár geti haft þau áhrif á skaðvalda á trjám að þeir valdi ekki miklum skaða þetta sumarið. Bæði séu minni líkur á að ryðsveppur nái sér á strik að marki og að skordýr valdi miklum skaða. Hann segir meðal annars að minna sé nú af birkikembu á birkitrjánum en var í fyrrasumar. Rætt er um þetta við Halldór í Morgunblaðinu í dag og einnig um þá kynbótaræktun ryðþolinna asparklóna sem hann stýrir.
Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi kennari á Selfossi, hefur unnið að skógrækt í liðlega hálfa öld og unnið ýmis afrek á því sviði. Skemmtilegar myndir frá skógræktarsvæði hans á Snæfoksstöðum í Grímsnesi sýna frábæran árangur Óskars. Ekki er árangurinn minni þegar litið er til þess að Óskar á marga afkomendur sem leggja skógrækt í landinu drjúgt lið með ýmsum hætti.
Settar hafa verið upp stórviðarsagir í nýju skemmunni á starfstöð Skógræktar ríkisins í Þjórsárdal, bæði bandsög og tifsög. Þessi nýja sögunarmylla gjörbreytir möguleikum stöðvarinnar til framleiðslu á smíðaviði. Þessa dagana er meðal annars unnið að því að vinna timbur í nýtt þjónustuhús sem rísa mun á næstunni í Laugarvatnsskógi.
Skógardagur Norðurlands var haldinn í Vaglaskógi laugardaginn 11. júlí í þokkalegu veðri, norðaustan golu og lítils háttar rigningu af og til. Ætla má að í það minnsta 300 manns hafi sótt viðburðinn.  Allir fóru glaðir og ánægðir heim eftir ánægjulegan dag.
Bændablaðið sem kom út í vikunni segir frá skemmtilegri aðferð sem Brynjar Skúlason, skógfræðingur og starfsmaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, notar við skógrækt sína heima í Hólsgerði í Eyjafirði. Klárinn Skuggi flytur bakkaplöntur á sérstökum búnaði sem Brynjar fékk austan af landi. Þarfasti þjónninn stendur því undir nafni í skóggræðslu landsins.