Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp sem á að kanna möguleika á að sameina í eina stofnun Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefnin í skógrækt og umsjón Hekluskóga. Markmiðið er m.a. að samræma stjórnsýslu skógræktarmála, gera hana skilvirkari, auka faglega getu og yfirsýn og að efla búsetu vítt og breitt um landið, til dæmis með því að styrkja starfstöðvar í landshlutunum.
Tilraun er hafin með ræktun hindberja í lúpínu- og kerfilbreiðum. Fyrstu plönturnar voru gróðursettar nú í vikunni á Hafnarsandi og í Esjuhlíðum. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hafði frumkvæði að tilrauninni sem er samvinnuverkefni Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum. Vonast er til að hindberjarækt sem þessi geti flýtt fyrir gróðurframvindu í lúpínu- og kerfilbreiðum en einnig gefið almenningi færi á berjatínslu og þar með aukið útivistargildi skóga.
Í síðustu viku gerðu starfsmenn Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, úttekt á asparklónatilraun Mógilsár í Sandlækjarmýri sem er í landi Þrándarholts í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Úttektin ætti að gefa góða vísbendingu um hvaða klónar gætu hentað til viðarmassaframleiðslu hérlendis.
Skógar Evrópu og þær atvinnugreinar sem á skógunum byggjast hafa margvíslega þýðingu fyrir efnahag álfunnar og stuðla bæði að góðum lífskjörum og sjálfbærni, skapa störf og virðisauka. Þetta segir Evrópuþingmaðurinn Elisabeth Köstinger í grein sem hún skrifar í veftímaritið The Parliament Magazine. Hún stýrði gerð skýrslu um nýja skógarstefnu eða -áætlun sambandsins. Áhersla er lögð á að skrifræði megi ekki verða skógargeiranum fjötur um fót með nýrri skógarstefnu.