Skógræktarfólk gengur til skógar.
Skógræktarfólk gengur til skógar.

Hugmyndin að sameina Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefnin og umsjón Hekluskóga

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað starfshóp sem á að kanna möguleika á að sameina Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefnin í skógrækt og umsjón Hekluskóga. Markmiðið er m.a. að samræma stjórnsýslu skógræktarmála, gera hana skilvirkari, auka faglega getu og yfirsýn og að efla búsetu vítt og breitt um landið, til dæmis með því að styrkja starfstöðvar í landshlutunum. Frá þessu er sagt í frétt á vef ráðuneytisins.

Ef af sameiningunni verður sameinast í eina stofnun Skógrækt ríkisins Vesturlandsskógar, Skjólskógar á Vestfjörðum, Norðurlandsskógar, Héraðs- og Austurlandsskógar og Suðurlandsskógar, auk umsjónar Hekluskógaverkefnisins. Í skipunarbréfi til starfshópsins kemur fram að gert sé ráð fyrir að stofnun á sviði skógræktar hafi höfuðstöðvar á Fljótsdalshéraði og reki a.m.k. fimm starfstöðvar, á Suðurlandi, Mógilsá, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Þannig verði starfstöðvar Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í landshlutunum sameinaðar.

Starfshópnum er ætlað að greina hver samlegð sameiningar skógræktarstarfs ríkisins yrði og skila í lok ágúst greinargerð um hugsanlegan ávinning og áskoranir. Hópurinn skal hafa náið samráð við Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands. Í hópnum sitja Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður sem er formaður hópsins, Vilhjálmur Árnason alþingismaður, Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Jón Loftsson skógræktarstjóri fyrir hönd Skógræktar ríkisins og Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, fulltrúi landshlutaverkefna í skógrækt. Með hópnum starfar Guðrún Ragnarsdóttir ráðgjafi auk ritara.

Nú þegar hefur verið boðað til fyrsta vinnufundar starfshópsins 11. júní. Þar verður rætt um hvaða verkefnum á sviði skógræktar sé eðlilegt að ríkið sinni annars vegar og atvinnurekendur eða bændur hins vegar, hvaða þekking sé nauðsynleg til að sinna þessum verkefnum, hvaða verkefnum sé nú þegar sinnt á sviði skógræktar og hverju sé fyrirsjáanlegt að sinna þurfi eftir tíu til tuttugu ár.

Texti: Pétur Halldórsson