Stefán Eggertsson heldur á vænum hindberjahnaus í skóginum á Mógilsá
Stefán Eggertsson heldur á vænum hindberjahnaus í skóginum á Mógilsá

Tilraun hafin á Mógilsá og Hafnarsandi að frumkvæði ráðherra

Tilraun er hafin með ræktun hindberja í lúpínu- og kerfilbreiðum. Fyrstu plönturnar voru gróðursettar nú í vikunni á Hafnarsandi og í Esjuhlíðum. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hafði frumkvæði að tilrauninni sem er samvinnuverkefni Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá, og Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum. Vonast er til að hindberjarækt sem þessi geti flýtt fyrir gróðurframvindu í lúpínu- og kerfilbreiðum en einnig gefið almenningi færi á berjatínslu og þar með aukið útivistargildi skóga.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra óskaði eftir því í byrjun ársins, skömmu eftir að hún tók við embætti, að hrundið yrði af stað rannsókn á því hvort rækta mætti hindber í annars vegar lúpínubreiðum og hins vegar þar sem skógarkerfill hefur náð að breiðast út. Í kjölfarið sendu Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, og Landbúnaðarháskóli Íslands umsókn til ráðuneytisins um styrk og fengust 100 þúsund krónur frá ráðuneytinu til verkefnisins. Forsvarsmenn þess eru Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður á Mógilsá, og Jón Kr. Arnarson, lektor við LbhÍ.

Hindber (Rubus idaeus L.) er allstórvaxinn, runnkenndur ættingi hrútaberjaklungurs (Rubus saxatilis) og hefur tegundin náttúrlega útbreiðslu um stærstan hluta af norðurhveli jarðar, að Íslandi undanskildu. Í kjölfar ræktunar á undanförnum áratugum er tegundin tekin að nema land og fjölgar sér með fræi og rótaskotum þar sem aðstæður henta tegundinni. Hindber eru fremur kröfuhörð á næringarstig jarðvegs og vaxa helst í frjósömum brekkum eða skógarbotnum. Í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs eru hindber meðal vinsælustu berja, bæði fersk og í sultur og saft.Markmið verkefnisins er að kanna möguleika á að nýta áburðaráhrif lúpínunnar til að ná hindberjauppskeru. Þannig væri hægt að fá nýtanlega uppskeru á svæðum sem áður voru blásnir melar. Um leið gæti ræktunin flýtt fyrir gróðurframvindu með því að hindberin gætu tekið við af lúpínu og skógarkerfli.

Lúpína hefur töluvert verið notuð á undanförnum áratugum til að græða upp sár í skógræktarlöndum. Víða væri því hægt hugsa sér að hindberin gætu komið inn í þessar breiður og aukið þannig útivistargildi skóga. Líklegast er að ræktunin gangi einna best þar sem lúpínan vex í skjóli trjágróðurs eða skóga. Þó er einnig áhugavert að reyna ræktunina við erfiðari veðurfarsskilyrði á skjóllausu berangri, enda er ekki síður algengt að lúpína vaxi á slíkum stöðum. Í Esjuhlíðum hefur útbreiðsla hindberjarunna undanfarin ár gefið vísbendingar um að tegundin geti náð yfirhöndinni í samkeppni við bæði lúpínu og skógarkerfil. Hindber þroskast á Mógilsá flest sumur og vegna þeirra er skógurinn þar orðinn vinsæll meðal almennings til berjatínslu.

Verkefnið verður unnið í tvennu lagi.

  • 1. Hnausplöntur á Mógilsá verða stungnar og fluttar til í samanburðartilraunir á tvenns konar frjósamt land, lúpínubreiður og skógarkerfilsbreiður, með og án aðgerða til að halda niðri samkeppni. Samtals verða gróðursettar 160 plöntur (2 landgerðir x 2 meðferðir x 4 endurtekningar x 10 plöntur).
  • 2. Ræktaðar verða plöntur af fjórum yrkjum í eins lítra pottum. Gróðursett verður í lúpínubreiður á Hafnarsandi, annars vegar á skjólgóðum stað þar sem fyrir er trjágróður og hins vegar á berangri sem vaxið er lúpínu. Gróðursettar verða níu plöntur af hverju yrki með þremur endurtekningum á hvorum stað, samtals 72 plöntur.

Ábyrgðarmenn verkefnisins annast um tilraunina og sjá um að meta vöxt, þrif og berjasprettu. Gefin verður út skýrsla um verkefnið innan fárra ára.

Gróðursetning hindberja í kerfilbreiðu á Mógilsá miðvikudaginn 3. júní 2015.">

Á miðvikudag voru gróðursettar plöntur í kerfilsbreiðum í Esjuhlíðum Mógilsár, alls 80 plöntur, og verður forvitnilegt að bera saman þau svæði í tilrauninni þar sem kerfillinn verður bældur frá hindberjaplöntunum og þar sem það verður ekki gert. Í gær, fimmtudag, var svo gróðursett í sams konar tilraun á tíu ára gamalli lúpínubreiðu á Hafnarsandi í grennd við Þorlákshöfn. Þar var áður örfoka sandur á helluhrauni en nú hefur lúpínan myndað nægilegt jarðvegslag til gróðursetningar þurftafrekari plantna.

Árni Geir Valgeirsson gróðursetur hnaus á Hafnarsandi.">

Plönturnar sem teknar voru í tilraunina voru stungnar upp í hindberjabreiðum ofan rannsóknastöðvarinnar á Mógilsá og eru af blöndum 20-30 klóna sem þar voru upphaflega gróðursettar á 9. áratug síðustu aldar. Eftir er að taka afstöðu til þess hvort efnt verður til samanburðartilraunar á Hafnarsandi með mismunandi ræktuð hindberjayrki. Miðað er við að reyna tvo stofna af hindberjum sem þegar vaxa á Íslandi, annars vegar stofn sem vex við Mógilsá og er vaxinn upp af fræi af villtum hindberjum frá Norður-Þrændalögum í Noregi en hins vegar gamlan hindberjastofn eða yrki sem finnst víða í görðum á Akureyri. Einnig er hugmyndin að fjölga tveimur harðgerðum yrkjum frá Noregi sem þar hafa verið notuð í berjarækt.

Meðfylgjandi myndir tók Aðalsteinn Sigurgeirsson af þeim Stefáni Eggertssyni og Árna Geir Valgeirssyni, sumarstarfsmönnum á Mógilsá, þegar þeir stungu upp hnausplöntur í skóginum, komu hindberjahnausum fyrir á geymslustað með vökvun og gróðursettu í tilraunina.

Hindberjarunnarnir standa vel upp úr lúpínunni sem byrjuð er að vaxa
þrátt fyrir vorsvalann.

 Kerfillinn er kominn nokkuð af stað á Mógilsá en hindberjarunnarnir standa vel upp úr honum líka.">

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Aðalsteinn Sigurgeirsson