Talsverðan mun má sjá á vexti frá einum klón til annars.
Talsverðan mun má sjá á vexti frá einum klón til annars.

Gæti gefið vísbendingu um hentuga klóna til viðarmassaframleiðslu

Í síðustu viku gerðu starfsmenn Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, úttekt á asparklónatilraun Mógilsár í Sandlækjarmýri sem er í landi Þrándarholts í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Úttektin ætti að gefa góða vísbendingu um hvaða klónar gætu hentað til viðarmassaframleiðslu hérlendis.

Tilraunin er er ein nokkurra klónatilrauna sem lagðar voru út á árunum 1992-1995 sem hluti af svonefndu Iðnviðarverkefni. Nokkrar af upprunalegu tilraununum eyðilögðust af ýmsum ástæðum, en staðirnir sem eftir standa eru sýndir á kortinu. Allar voru tilraunirnar hæðarmældar árin 2005-2006, og tilraunirnar á Böðmóðsstöðum og í Þrándarholti voru hæðar- og þvermálsmældar haustið 2010.

Í tilrauninni í Þrándarholti eru 40 alaskaasparklónar, 2 blæasparklónar og alaskavíðirinn Hríma. Mikill breytileiki er á milli klónanna hvað viðkemur afföllum, vaxtarhraða og vaxtarlagi.

Jóhanna Ólafsdóttir mælir þvermál aspar í brjósthæð.">

Sumir klónarnir eru greinamiklir og grófir en aðrir með grannar greinar og nettara vaxtarlag eins og margir þekkja. Algeng hæð trjánna er nú 6-9 metrar, en stöku tré hafa náð yfir 11 metra. Þvermál stofns í brjósthæð er mjög breytileg. Metið var nú tæpir 20 sentimetrar, en algengast var að þvermálið mældist 10-15 sm. Lífmassi trjáa ræðst fyrst og fremst af stofnþvermáli og er því mikilægur mælikvarði á það hve vel trén henta til iðnviðarframleiðslu.

Nú er tilraunin í Þrándarholti orðin 20 ára gömul. Í áætlunum um nýtingu aspar til framleiðslu viðarmassa hefur iðulega verið miðað við 20 ára ræktunarlotu. Þessi úttekt nú ætti því að gefa góða vísbendingu um það hvaða klónar gætu hentað til þeirra nota.

Í skóginum sem umlykur tilraunina er aðallega alaskaösp af klóninum ´Iðunni´. Þar fara nú fram tilraunir með fellingartíma, endurnýjun með sprotum eftir fellingu og fleira. Meðfylgjandi yfirlitsmynd, sem tekin var í lok ágústmánaðar síðasta sumar sýnir ,,Sandlækjarskóg“. Aðrar myndir voru teknar af klónatilrauninni í síðustu viku.

Mælingarnar á öspinni í Sandlækjarmýri njóta styrks frá norræna WoodBio-verkefninu. Verkefni þetta fæst við viðarlífmassann sem fellur til við almenna umhirðu og grisjun skóga, við timburvinnslu og frá skógum sem eru ræktaðir sérstaklega til framleiðslu á lífmassa. Þátttakendur í verkefninu eru frá Norðurlöndunum fimm, frá háskólum, rannsóknastofnunum og úr einkageiranum.


Þótt trén séu ekki nema tuttugu ára gömul eru mörg þeirra mjög myndarleg og bolirnir sverir.">

Texti: Halldór Sverrisson og Pétur Halldórsson
Myndir: Halldór Sverrisson