Hátíðarhöld Skógardagsins mikla í Hallormsstaðaskógi hefjast í kvöld kl. 19 með grillveislu Landssamtaka sauðfjárbænda og sauðfjárbænda á Austurlandi. Á sjálfan skógardaginn á morgun hefst dagskráin kl. 12 með skógarhlaupinu og formleg dagskrá í Mörkinni hefst á Íslandsmeistaramótinu í skógarhöggi kl. 13.
Ef menn stöðva ekki þá óheyrilegu jarðvegseyðingu sem geisar á jörðinni vofir mikil hætta yfir mannkyni. Við verðum að snúa við blaðinu, græða upp land, rækta skóg og stefna að jafnvægi þar sem heilbrigt og gjöfult land á jörðinni helst stöðugt og jafnvel stækkar. Uppgræðsla rofsvæða á jörðinni er mikilvæg til að ná tökum á loftslagsvandanum.
Á ráðstefnu sem haldin verður á Selfossi seint í ágúst verður fjallað um loftslagsbreytingar og hvaða möguleika skógartré hafa til að þróast og laga sig að breytingunum. Enn er hægt að leggja inn fyrirlestra á ráðstefnuna og aðstandendur hennar óska sérstaklega eftir erindum um sviperfðir (epigenetics) og stýrðan flutning á búsvæðum tegunda (assisted migration).
Upplýsingakerfið Heureka sem ætlað er til vinnu við skipulag og áætlanagerðar í skógrækt og skógarnytjum er afrakstur þróunarstarfs sænskra vísindamanna og hefur vakið athygli víða um heim. Nú hafa Norðmenn ákveðið að taka það upp í skógræktaráætlunum sínum. Sagt er frá þessu og fleiru í nýútkomnu fréttabréfi SNS, Samnorrænna skógarrannsókna.
Í nýútkomnu fréttabréfi alþjóðasambands skógrannsóknarstofnana, IUFRO, er sagt frá fundi yfirstjórnar sambandsins í Vín, flutt tíðindi af fundi skógaráðs SÞ í New York og sagt frá viðburðum sem tengjast IUFRO á alheimsráðstefnunni um skóga í Durban í Suður-Afríku í september.