Tíðindi af alþjóðlegu samstarfi

Ný skógarstefna Evrópu fyrir árin 2015-2019 var í brennidepli á 54. fundi yfirstjórnar IUFRO sem fram fór í Vínarborg 15. og 16. apríl. Stjórnin lagði blessun sína yfir nokkra nýja vinnuhópa og fleiri eru í undirbúningi. Sömuleiðis staðfesti stjórnin dagsetningar fyrir næstu höfuðviðburði IUFRO, svæðisráðstefnu Asíu og Eyjaálfu sem haldin verður 2016 og 125 ára afmælishátíð IUFRO sem fer fram 2017.

Í fréttabréfinu er greint frá þeim atriðum sem helst snertu IUFRO á ellefta fundi skógaráðs Sameinuðu þjóðanna, UNFF11, sem haldinn var í New York dagana 4.-15. maí. Í fyrsta lagi skal þar nefnd formleg útgáfa nýrrar skýrslu GPEF, sérfræðingahóps IUFRO um skóga og matvælaöryggi. Í öðru lagi var sameiginleg yfirlýsing þriggja alþjóðlegra skógarstofnana til skógaráðs Sameinuðu þjóðanna. Stofnanirnar eru  CIFOR, alþjóðlega skógrannsóknarmiðstöðin, IUFRO, alþjóðasamband skógrannsóknarstofnana, og ICRAF, alþjóðlega rannsóknarmiðstöðin um skógarlandbúnað. Í þriðja lagi var hliðarviðburður við fund skógaráðs SÞ, sem IUFRO-WFSE stóð fyrir, en það er sérstakt verkefni á vegum IUFRO um samhengi skóga heimsins við samfélög og umhverfi.

Þá eru í fréttabréfinu tíðindi af fundi IUFRO um hagfræðileg efni sem haldinn var í Sarajevó í Bosníu Hersegóvínu 4.-6. mars, af ráðstefnunni Forestry: Bridge to the Future sem haldin var í Sofiu í Búlgaríu 6.-9. maí og frá hátíðahöldum í Tyrklandi vegna alþjóðlega skógardagsins 21. mars.

Farið er yfir viðburði sem fram undan eru í heiminum á skógasviðinu og meðal annars tíundaðir viðburðir sem tengjast IUFRO á alheimsráðstefnunni World Forestry Congress sem haldin verður í Durban í Suður-Afríku 7.-11. september í haust.

Texti: Pétur Halldórsson