Óskað eftir erindum á áhugaverða ráðstefnu á Selfossi í ágúst

Senn rennur út frestur til að leggja inn fyrirlestra eða veggspjöld til áhugaverðrar ráðstefnu sem haldin verður á Selfossi seint í ágústmánuði í sumar. Þar verður fjallað um loftslagsbreytingar og hvaða möguleika skógartré hafa til að þróast og laga sig að breytingunum. Aðstandendur ráðstefnunnar hvetja sérfræðinga til þátttöku og óska sérstaklega eftir erindum um sviperfðir (epigenetics) og stýrðan flutning á búsvæðum tegunda (assisted migration).

Í tengslum við ráðstefnuna verður einmitt haldið námskeið eða vinnusmiðja um þessi málefni, loftslagsbreytingar og aðlögunarhæfni skógartrjáa. Ráðstefnan hefst mánudaginn 24. ágúst haldnir inngangsfyrirlestrar um helstu áhersluefnin. Á þriðja degi verður farið í vettvangsferð en fimmtudaginn 27. ágúst hefst námskeiðið, tveggja daga& vinnusmiðja eða þjálfunarbúðir þar sem farið verður í hvernig meta má og greina aðlögunarþætti í tilraunum sem gerðar eru í skógi eða á staðnum.

Inngangsfyrirlesarar

Ráðstefnan er á vegum norræna verkefnisins AdapCAR og evrópska verkefnisins Evoltree. AdapCAR er samstarfsvettvangur um framhaldsrannsóknir í skógerfðafræði, plöntuuppeldi og endurnýjun skóga sem snúast um að aðlagast loftslagsbreytingum og hamla gegn þeim. Þetta er fimm ára verkefni sem hófst 2011 og lýkur í ár. Evoltree er Evrópuverkefni sem starfar nú orðið undir hatti evrópsku skógarstofnunarinnar EFI. Markmið þess er að tengja saman fjögur meginsvið, vistfræði, erfðafræði, genamengjafræði og þróunarfræði, til að fást við þau alheimsvandamál sem nú herja á skóga Evrópu með umhverfisbreytingum og skertri líffjölbreytni. Nú starfa 32 rannsóknarhópar undir merkjum Evoltree í 24 Evrópulöndum.

Fyrirlesarar óskast

Þau sem hafa áhuga á að halda fyrirlestur eða sýna veggspjöld á ráðstefnunni eru beðin að hafa samband við Jon Kehlet Hansen á netfangið jkn@gn.ku.dk áður en júnímánuður er úti og tilgreina titil og efni fyrirlesturs eða veggspjalds.

Gist verður á Hótel Selfossi.

Texti: Pétur Halldórsson