Út er komin í rafræna vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences grein eftir Mörju Maljanen o.fl. um áhrif ösku úr Eyjafjallagosinu á ýmsa jarðvegsþætti í finnskum mýrajarðvegi. Efnagreiningar á íslenskri eldfjallaösku gefa til kynna að bein áhrif eldgosa á Íslandi geti náð langt út fyrir landsteinana.
Slagorð alþjóðlegs dags skóga er að þessu sinni Create a Climate Smart Future og felur í sér hvatningu um að við búum okkur framtíð sem felur í sér skynsamlegar lausnir í loftslagsmálum. Æ meira er rætt um mikilvægt hlutverk skóga í baráttunni við loftslagsbreytingar
Málþing um áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni á gróður og lífríki verður haldið mánudaginn 23. mars í fundarsalnum Kötlu á 2. hæð á Hótel Sögu í Reykjavík. Þar verður miðlað upplýsingum um bein og óbein áhrif mengunar frá eldgosinu í Holuhrauni og hvernig eftirliti með menguninni er og verður háttað.
Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga laugardaginn 21. mars hefur Skógrækt ríkisins gefið út ljósmyndasyrpu með hugleiðingu um stöðu skóga og skógræktar á tímum örra breytinga í veðrakerfum náttúrunnar. Á alþjóðadegi skóga er það von okkar hjá Skógrækt ríkisins að fólk hugsi hlýlega til skóganna og hvað þeir gefa okkur í formi andlegra og veraldlegra gæða.
Nokkrar skemmdir urðu á skógum vestan lands í óveðrinu sem gekk yfir landið laugardaginn 14. mars, aðallega á Stálpastaða- og Norðtunguskógi. Nýgrisjaðir skógar eru viðkvæmir fyrir stórviðrum meðan trén sem eftir standa eru að styrkja rótarkerfi sitt.