Ágúst Ingi Jónsson blaðamaður fjallar um skógrækt í Baksviði Morgunblaðsins í dag, mánudaginn 30. mars, og tíundar þar sívaxandi afurðir íslenskra skóga og arðinn af þeim. Rætt er við Þröst Eysteinsson, sviðstjóra þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins, og fram kemur að íslensku skógarnir gefi nú árlega þúsundir rúmmetra af trjáviði og tekjur af viðarsölu hérlendis hafi numið um 200 milljónum króna á síðasta ári.
Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga 21. mars sendi alþjóðamiðstöð skógfræðirannsókna, CIFOR, frá sér fróðlegar greinar og myndband með viðtölum við framúrskarandi sérfræðinga. Vert þótti á þessum degi að vekja athygli á þýðingu skóga fyrir lífið á jörðinni á þessu ári sem skipt getur sköpum í samstarfi þjóða heims um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.
Gefin hefur verið út ensk útgáfa myndbandsins sem Skógrækt ríkisins gerði í tilefni af alþjóðlegum degi skóga, 21. mars 2015. Tilgangurinn er öðrum þræði að vekja athygli umheimsins á því að á Íslandi geti vaxið gjöfulir nytjaskógar og tækifærin séu mörg til nýskógræktar.
Fagráðstefna skógræktar 2015 var haldin í Borgarnesi dagana 11.-12. mars. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin í samvinnu við NordGen Forest, skógarsvið norrænu erfðavísindastofnunarinnar, og var fyrri dagur hennar helgaður trjákynbótum að verulegu leyti með yfirskriftinni „Aukin framleiðni skóga á jaðarsvæðum með trjákynbótum“. Seinni daginn voru flutt fjölbreytt erindi um hinar ýmsu hliðar skógræktar. Mörg tengdust þau fjölbreytilegum nytjum skóga og nýsköpun í þeim efnum.
Hópur krabbameinssérfræðinga frá ellefu löndum hefur kveðið upp úrskurð um að efnið glífósat, sem er virka efnið í algengasta illgresiseitri heims, sé líklega krabbameinsvaldandi fyrir fólk. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að efnið geti valdið krabbameini í dýrum og efnið hefur einnig valdið skemmdum í erfðaefni mannsfrumna á rannsóknarstofum.