Elsta broddfura í heimi, ríflega 5.000 ára gömul. Mynd: Þröstur Eysteinsson.
Elsta broddfura í heimi, ríflega 5.000 ára gömul. Mynd: Þröstur Eysteinsson.

Skógar á tímum loftslagsbreytinga

Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga laugardaginn 21. mars hefur Skógrækt ríkisins gefið út ljósmyndasyrpu með hugleiðingu um stöðu skóga og skógræktar á tímum örra breytinga í veðrakerfum náttúrunnar. Á alþjóðadegi skóga er það von okkar hjá Skógrækt ríkisins að fólk hugsi hlýlega til skóganna og hvað þeir gefa okkur í formi andlegra og veraldlegra gæða.

Tré eru langlífustu lífverur jarðarinnar. Til eru broddfurur sem hafa náð meira en 5000 ára aldri og ætlað er að rauðgrenitré eitt í Svíþjóð og einstaka græður nöturaspar í Klettafjöllum séu allt að 10.000 ára gamlar. Grenið og öspin hafa endurnýjað sig með sveig-græðslu eða rótarskotum í aldanna rás, en erfðafræðilega er einstaklingurinn sá sami og í öndverðu. Myndbandið með ljósmyndasyrpunni hefst á umfjöllun um þessi öldnu tré. Smellið á myndina hér fyrir neðan til að horfa. Best er að stilla á háskerpu til að myndirnar verði sem skýrastar. Það má gera með því að ýta á tannhjólið neðst til hægri á myndbandsglugganum og velja „1080p HD“ ef nettengingin leyfir.

https://www.youtube.com/watch?v=2X7EI-9KgRU&feature=youtu.be

Stærsta blæaspargræðan á Íslandi er í Stöðvarfirði og nær yfir um 40 hektara landsvæði. Allt er það sami einstaklingurinn. Ösp þessi er hægvaxta og skriðul. Ætla má að það hafi tekið hana þúsundir ára að ná þessari útbreiðslu, enda breiðist hún eingöngu út með rótarskotum. Hugsanlegt er að fræ hafi fo kið hingað frá Evrópu um það leyti sem tunga ísaldarjökulsins var að hörfa úr Stöðvarfirði fyrir um 10.000 árum. Land hefur þá verið ógróið og fræið gat fundið sér stað til að spíra.    

Íslenskur öldungur

Ísaldaröspin í Stöðvarfirði gat lifað við það loftslag sem hér hefur ríkt þrátt fyrir nokkrar sveiflur. Eina samkeppnin við hana var birkikjarr, sem á Austfjörðum er líka lágvaxið. Ösp sem líkist þessari er hins vegar ekki lengur að finna á upprunasvæðum hennar sunnan við þau mörk sem ísaldarjökullinn náði að í Evrópu.  Þar óx og vex enn skógur hávaxinna trjátegunda sem einungis hávaxnar aspir gátu staðist samkeppni við.

Loftslagsbreytingar

Tré hafa nokkurt þol gegn loftslagsbreytingum. Þau þola sveiflurnar sem algengar eru frá ári til árs, sveiflur um 2-3 gráður í meðalhita og tugi millimetra í úrkomu. Sömuleiðis þola skógar allnokkrar sveiflur án þess að á þeim verið mikill skaði. Það er ekki síst af því að víðast hvar vaxa fleiri en ein trjátegund í skógum. Þótt ein tegundin eigi í erfiðleikum eða jafnvel hverfi, þá eyðist ekki skógurinn. Það eru helst einhæfir skógar, eins og t.d. íslensku birkiskógarnir, sem stendur ógn af loftslagsbreytingum.

Eftir því sem veðurfarssveiflur eru meiri og vara lengur, geta einstakar trjátegundir og jafnvel skógar farið að láta á sjá. Oftast er það af því að af álaginu verða trén viðkvæmari fyrir skordýraplágum eða sveppasjúkdómum. Þegar slíkt fer saman við aukna tíðni skordýrafaraldra vegna hlýrra veðurs eða velgengni sveppa vegna aukinnar úrkomu er voðinn vís. Tíðari og harðari hvassviðri geta einnig valdið auknum skaða á trjám og skógum.

Vísindin á bak við gróðurhúsáhrif koltvísýrings í andrúmsloftinu eru sannreynd og sömuleiðis eru mælingarnar réttar sem sýna sífellt aukinn styrk koltvísýrings og hækkandi meðalhita. Þrátt fyrir sveiflur og tímabundin bakslög heldur hin undirliggjandi og langvarandi aukning koltvísýrings áfram og áhrifin eiga eftir að verða margslungin. Um miðja öldina getur birki líklega vaxið á nærri öllu landinu, líka á mestöllu hálendinu, og möguleikar til nytjaskógræktar aukast mjög eftir því sem á öldina líður.

Að bregðast við breytingunum

Í skógrækt verður að horfa til langs tíma og taka þessar yfirvofandi breytingar til greina þegar ákveðnar eru ræktunaraðferðir og notkun trjátegunda eða kvæma. Að vísu er fyrsta þolraun trjáa sú að lifa af sem ungplöntur. Það er því ávallt svo að tré þurfa að vera aðlöguð ríkjandi aðstæðum eins og þær eru við gróðursetningu.   

Ýmislegt er þó hægt að gera til að búa skógrækt undir þær loftslagsbreytingar sem eru að verða. Það fyrsta er að byggja upp góða þekkingu á aðlögun og líklegum viðbrögðum helstu trjátegunda við loftslagsbreytingum. Veruleg þekking hefur þegar fengist um birki, lerki, sitkagreni, alaskaösp og stafafuru. Þar þekkjum við ýmsa styrkleika og veikleika sem gefa til kynna hver viðbrögðin eru líkleg til að verða eftir því hvernig loftslag breytist. Áfram þarf svo að viðhalda, efla og uppfæra þekkinguna, sem þýðir að fólk þarf að mennta sig á þessum sviðum og það verður að vera hægt að bjóða því menntaða fólki vinnu. 

Í öðru lagi þarf að tryggja framboð af fjölgunarefni, að við eigum til taks nóg af fræi og græðlingum af þeim erfðafræðilegu gæðum sem duga. Það verður best gert með virkum kynbótum hérlendis en jafnframt með samböndum við önnur lönd. Samstarf er milli Norðurlandanna á þessu sviði og sambönd eru við önnur Evrópulönd og til Kanada og Bandaríkin. Fylgjast þarf með vexti og þrifum í eldri tilraunum og leggja út nýjar erfðafræðilegar tilraunir eftir því sem tilefni er til.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að skógareigendur séu opnir fyrir fjölbreyttum möguleikum skógarnytja. Það er t.d. ekki ástæða til að miða alla skógrækt við framleiðslu á borðviði á 80-100 ára lotum. Hægt er að rækta alaskaösp til lífmassaframleiðslu á 25-30 árum á frjósömu landi og lerki eða stafafuru á 40 árum á rýrara landi. Sé hluti ræktunarinnar hugsaður í styttri lotum minnkar áhættan og óðar verður hægt að skipta yfir í betur aðlagaðan efnivið. Einnig er rétt að huga að fjölbreytni í tegundavali. Slíkt gerist oft sjálfkrafa þegar tegundir eru valdar m.t.t. til gróðurfars. Þá er hægt að rækta asparreiti og grenilundi á frjósömu landi, furu á minna frjósömu landi og lerki á rýrustu blettunum. Í landslaginu vex þá blandskógur þótt tegundum sé ekki blandað í hverjum reit.

Fikrum okkur hærra í landið

Margt fleira mætti nefna, en hér verður eitt atriði látið duga. Huga ætti að því að rækta skóg í meiri hæð yfir sjávarmáli en hingað til hefur tíðkast. Á birki herja oft skordýrafaraldrar og rússalerki vill helst hafa nokkuð stöðugan kulda að vetrarlagi. Þessi atriði horfa að öllum líkindum til verri vegar eftir því sem hlýnar. Slíkt þýðir þó ekki að þessar tegundir hafi ekki áfram hlutverki að gegna í skógrækt því full ástæða er til að auka skógrækt í 300-500 m hæð. Þar gæti birkið fundið frið fyrir fiðrildalirfum og lerkið nægilega kalda vetur auk þess sem mikið er af rýru og rofnu landi sem þarf á skógi að halda. Á láglendi ætti helst að rækta gjöfular tegundir eins og alaskaösp, sitkagreni, stafafuru og lerkiblendinginn Hrym.

Á alþjóðadegi skóga, 21. mars, er það von okkar hjá Skógrækt ríkisins að fólk hugsi hlýlega til skóganna og hvað þeir gefa okkur í formi andlegra og veraldlegra gæða. Á tímum hraðfara breytinga er ekki sjálfgefið að þeir standist allir álagið. Nauðsynlegt er að vinna að vernd, eflingu og sjálfbærri nýtingu þeirra svo þeir megi til frambúðar verða okkur til gagns og yndis.   

Texti: Þröstur Eysteinsson