Alþjóðasamband skógrannsóknarstofnana, IUFRO, stendur fyrir ráðstefnu um frægarða í byrjun septembermánaðar. Ráðstefnan verður haldin í Bålsta í Svíþjóð og þar verður fjallað um nýjasta nýtt í rannsóknum sem snerta trjáfrægarða og hlutverk þeirra í skógrækt.
Snjólétt hefur verið á öllu landinu í vetur og milt veður. Þetta hefur bæði kosti og ókosti fyrir framleiðendur skógarplantna. Í Bændablaðinu er rætt við Katrínu Ásgrímsdóttur í Sólskógum sem segir að lerkið hafi verið byrjað að lifna í hlýindunum undanfarið. Því fagni hún heldur kaldara veðri síðustu daga með svolítilli snjóhulu þótt snjóleysið í vetur hafi létt ýmis störf mikið.
Skógrækt er á allra vörum eftir að ný „Brynhildarskýrsla“ var kynnt í liðinni viku. Samkvæmt skýrslunni gæti árleg nettóbinding íslenskra skóga orðið um ein milljón tonna um miðja öldina, mælt í koltvísýringsígildum, ef gróðursett væri fjórum sinnum meira á hverju ári en nú er gert. En ekki dugar það eitt að tala um hlutina. Hefjast þarf handa.
Viður geymir fingraför náttúrunnar og því tengjumst við timburhúsum betur en húsum úr stáli og steinsteypu. Þetta segir kanadíski arkitektinn Michael Green sem hefur séð fólk faðma að sér timbursúlu í húsum sem hann hefur teiknað en aldrei stál- eða steypusúlu. Hann tekur nú þátt í hönnun háhýsa úr timbri og segir frá þeim í TED-fyrirlestri.
Út er komin endurskoðuð útgáfa bæklings Skógræktarinnar og Skipulagsstofnunar um skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Bæklingurinn nýtist sveitarfélögum vel við skipulag landnotkunar og treystir stöðu skóga og skógræktar í skipulagsstarfi.