Frægarðaráðstefna IUFRO 2017 verður haldin í Bålsta skammt frá Stokkhólmi í Svíþjóð dagana 4.-6. sep…
Frægarðaráðstefna IUFRO 2017 verður haldin í Bålsta skammt frá Stokkhólmi í Svíþjóð dagana 4.-6. september.

Nýjasta nýtt í rannsóknum sem snerta trjáfrægarða

Alþjóðasamband skógrannsóknarstofnana, IUFRO, stendur fyrir ráðstefnu um fræ­garða í byrjun septembermánaðar, IUFRO Seed Orchard Conference 2017. Ráð­stefn­an verður haldin í Bålsta í Svíþjóð og þar verður fjallað um nýjasta nýtt í rannsóknum sem snerta trjáfrægarða og hlutverk þeirra í skógrækt.

Að ráðstefnunni standa fyrir hönd IUFRO sænski landbúnaðarháskólinn SLU, sænska skógrannsóknarstofnunin Skog­forsk og Svenska Skogsplantor sem er al­hliða þjónustu- og framleiðslufyrirtæki fyrir skógrækt um alla Svíþjóð.

Með ráðstefnunni vill IUFRO gefa m.a. vísindafólki, stúdentum og stjórnendum frægarða og plöntuframleiðenda tæki­færi til að skiptast á öllu því sem nýjast er í fræðum og aðferðum á þessu sviði og hvernig þessar nýjungar megi sem best nýta í skógrækt á komandi tíð. Fjallað verður um samhengið milli frægarðastarfsemi og trjákynbótastarfs, um hönnun, skipulag og umhirðu frægarða, meinafræði frægarða, fræprófanir og geymslu fræs, lífeðlisfræði fræja og tækni, skógarhagfræði, varðveislu erfðaefnis og samspil frægarða við skyld fög.


Frægarðar eru mikilvægasti hlekkurinn milli trjáræktar og þess langtímastarfs sem trjá­kynbætur eru. Fræframleiðsla í fræ­görð­um er hagkvæmasta aðferðin til að framleiða kynbætt endurnýjunarefni fyrir skógrækt. Kostir frægarða ríma við ýmis kunnugleg stef í nútíma tilveru, framboð hráefna og orku, kolefnisbindingu, loftslagsbreytingar, varðveislu erfðaefnis, vottun skóga og sjálfbærni. Sömuleiðis eru frægarðar öflugt tæki til að gera við ýmsar skemmdir sem mannskepnan hefur valdið á jarðkúlunni svo sem með skógar- og jarðvegseyðingu.

Frægarðaráðstefnan verður haldin í Bålsta, litlum bæ skammt frá Arlanda-flugvellinum í nágrenni Stokkhólms. Fundarstaðurinn heitir Aronsborgs Conference Centre og er í huggulegu umhverfi sem býður ekki ein­ungis upp á hentugar aðstæður til að læra eitthvað nýtt heldur er þarna möguleiki á afslöppun í góðri gistingu og uppbyggilegum samræðum og félagsskap við kollega hvaðanæva. Stutt er til Stokkhólms og Uppsala og ótalmargt að sjá og njóta.

Nánari upplýsingar er að finna á vef ráðstefnunnar.

Texti: Pétur Halldórsson