2. útgáfa bæklings Skógræktarinnar og Skipulagsstofnunar

Skógræktin gaf árið 2017 út endurskoðaða útgáfu bæklings síns og Skipulagsstofnunar um skógrækt í skipulagsáætlunum sveitar­fé­laga. Bæklingurinn nýtist sveitarfélögum vel við skipulag landnotkunar og treystir stöðu skóga og skógræktar í skipulags­starfi.

Í þessu hefti eru settar fram almennar leið­beiningar sem eiga að nýtast við mótun stefnu um skógrækt í skipulagsáætlunum. Einnig er leiðbeint um málsmeðferð og gögn sem þarf að leggja fram við gerð skógræktaráætlana, ósk um framkvæmda­leyfi og vegna skógræktar sem fellur undir lög um mat á umhverfisáhrifum, eins og segir í inngangi bæklingsins.

Í skipulagsáætlun er sett fram stefna sveitar­­stjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrir­komulag byggðar. Þar er jafnframt lýst forsend­um að baki stefnunni og eftir at­vik­um hvernig staðið verður að framkvæmd hennar. Öll mann­virki og aðrar fram­kvæmd­ir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess eiga að vera í samræmi við skipulagsáætlanir.

Í skipulags­lögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eru skilgreindar þrjár gerðir skipulags­áætlana, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Við gerð skipulagsáætlana þarf að taka mið af landsskipulagsstefnu sem er samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál .

Ritið var fyrst gefið út árið 2008, en var uppfært 2017 miðað við þær breytingar sem orðið höfðu þá á lögum og stefnu stjórnvalda. Bæklingnum má hlaða niður á skogur.is en einnig er hægt að fá senda prentaða útgáfu hans. Óskir um slíkt skal senda Hrefnu Jóhannesdóttur, skipulagsfulltrúa Skógræktarinnar, hrefna@skogur.is.

Texti: Pétur Halldórsson