Norska fyrirtækið Norsk trefiberisolering framleiðir einangrunarefni úr trjáviði sem sagt er geyma varma sex sinnum betur en steinull miðað við rúmmál. Mjúkar trefjarnar í timbrinu gefi líka betri hljóðeinangrun, timbureinangrunin geti hvorki brunnið né bráðnað og hún tempri raka tíu sinnum betur en önnur einangrun. Efnið sé mjög visthæft enda sé bundið umtalsvert magn af koltvísýringi í efninu öfugt við framleiðslu annars konar einangrunarefna sem hafi talsverða losun CO2 í för með sér.
Hörður G. Kristinsson, rannsóknarstjóri hjá Matís, hefur þegið boð um að sitja í evrópska lífhagkerfisráðinu, European Bioeconomy Panel. Hann situr í ráðinu fyrir hönd Matís og íslenska vísindasamfélagsins. Evrópska lífkhagkerfisráðið er vettvangur fyrir umræður um lifhagkerfið. Þar er átt við matvælaiðnað, fóðurframleiðslu, skógrækt, sjávarútveg, landbúnað, fiskeldi og lífefnaiðnað. 
Skógrækt ríkisins og Héraðs- og Austurlandsskógar hafa ásamt fleirum fest kaup á nýjum kurlara sem gangsettur var í fyrsta sinn á föstudaginn var. Þetta nýja tæki gefur mun betra og jafnara kurl en gamall kurlari sem auk þess var úr sér genginn. Ennig sparast olía því nú verður aðeins ein vél í gangi við kurlunina í stað tveggja áður.
Framkvæmda- og hafnanefnd Norðurþings samþykkti í síðustu viku að taka þátt í tilraunaverkefni fyrirtækisins Rootopiu sem felst í að gróðursetja öflugar birkiplöntur í lúpínubreiður. Rootopia ehf leggur til 450 eins metra háar birkiplöntur sem smitaðar hafa verið með svepprót en sveitarfélagið starfskraft við gróðursetningu.
Benjamín Örn Davíðsson skógfræðingur hefur verið ráðinn í starf aðstoðarskógarvarðar við embætti skógarvarðarins á Norðurlandi. Benjamín hefur undanfarin misseri starfað sem skógverktaki á Norðurlandi og kemur með dýrmæta reynslu og þekkingu í nýtt starf. Hann tekur til starfa í dag.