(mynd: Hreinn Óskarsson)
(mynd: Hreinn Óskarsson)

Tilraunaverkefni í Norðurþingi

Á fundi framkvæmda- og hafnanefndar Norðurþings í síðustu viku var tekið fyrir erindi frá fyrirtækinu Rootopia ehf. sem leitaði samstarfs, helst við sveitarfélag, um tilraunaverkefni þar sem öflugar birkiplöntur yrðu gróðursettar í lúpínubreiður. Fram kemur í fundargerð að fyritækið bjóði 450 eins metra háar birkiplöntur sem smitaðar hafi verið með svepprót. Sveitarfélagið leggi til starfskraft við gróðursetningu. Framkvæmda- og hafnanefnd samþykkti að taka þátt í verkefninu.

Fréttablaðið fjallar um málið í dag og ræðir þar við forsvarsmann Rootopiu ehf., Jón Jóel Einarsson, sem segir að plönturnar verði smitaðar með svepprót til að bæta fyrir skort á örverum í skóglausu landi. Aðferðin tryggi að plönturnar verði sjálfbærar að gróðursetningu lokinni. Engan áburð þurfi enda framleiðir lúpínan með hjálp baktería meira nitur en hún notar sjálf.

Eftir því sem vefurinn skogur.is kemst næst er ætlunin að bera saman þrjár gerðir birkiplantna til að sjá hvernig þeim reiðir af í lúpínugrónu landi annars vegar og hins vegar lítt grónu landi við sambærilegar aðstæður. Í fyrsta lagi verða settar niður bakkaplöntur, í öðru lagi pottaplöntur í 1,5 lítra pottum og í þriðja lagi svokallaðar lífefldar plöntur frá Rootopia. Alls verða gróðursettar 450 plöntur í tilrauninni. Árlega verður athugaður hæðarvöxtur, lifun, frostlyfting og fleiri þættir í a.m.k. 5 ár. Tilrauninni stjórnar Úlfur Óskarsson, skógfræðingur og lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, og vonast er til að með henni komi í ljós hvort lífefldu plönturnar reynast hafa forskot á hefðbundnar pottaplöntur, ýmist á rýru landi eða lúpínugrónu.

Texti: Pétur Halldórsson
Mynd úr Þjórsárdal: Hreinn Óskarsson