Vettvangur fyrir umræður um lífhagkerfið, meðal annars skógrækt

Hörður G. Kristinsson, rannsóknarstjóri hjá Matís, hefur þegið boð um að sitja í evrópska lífhagkerfisráðinu, European Bioeconomy Panel. Hann situr í ráðinu fyrir hönd Matís og íslenska vísindasamfélagsins. Evrópska lífkhagkerfisráðið er vettvangur fyrir umræður um lifhagkerfið. Þar er átt við matvælaiðnað, fóðurframleiðslu, skógrækt, sjávarútveg, landbúnað, fiskeldi og lífefnaiðnað. Sagt er frá þessu í frétt á vef Matís.

Haft er eftir Herði í fréttinni að eftir stofnun lífhagkerfisráðsins hafi umræða um lífhagkerfið aukist mikið. „Lífhagkerfið snertir mörg svið og lífhagkerfisráðið því mikilvægt tæki til að styðja samskipti milli málaflokka. Evrópa 2020 er 10 ára stefnumörkun Evrópusambandsins sem hefur það markmið að stuðla að sjálfbærum hagvexti innan sambandsins. Eitt af áherslusviðum í stefnunni er sjálfbær vöxtur, loftslagsmál, græn orka, betri nýting orku og aukin samkeppnishæfni á markaði.“

Í lífhagkerfisráðinu sitja 30 sérfræðingar sem allir eru sérfræðingar á sínu sviði innan lífhagfræði, segir á heimasíðu Matís. Hörður segir að Evrópubúar standi frammi fyrir margvíslegum viðfangsefnum með auknum mannfjölda, auknu álagi á umhverfið og loftslagsbreytingum svo eitthvað sé nefnt. Í því ljósi sé mikilvægt að stýra nýtingu auðlinda vel og með sjálfbærum hætti.

„Meðal stærstu verkefna Evrópska lífhagkerfisráðsins er að mynda Bioeconomy Observatory, en markmið þess verður að kortleggja og fylgjast með framförum og áhrifum evrópska lífhagkerfisins og vinna að langtímastefnu sem gagnast við þróun lífhagkerfisins. Við höfum einnig unnið mikið við skilgreiningar og kortlagningar og sett fram tillögur varðandi  þann lífmassa sem er fáanlegur í Evrópu. Þessi vinna er mjög mikilvæg til að lífauðlindir nýtist á sjálfbæran og arðbæran máta. Lífauðlindir okkar eru fjölbreyttar og snerta marga þætti í fæðu-, fóður-, orku- og lyfja- og landbúnaðarframleiðslu. Í þessari úttekt höfum við þurft að taka tillit til ýmissa efnahagsþátta, félagslegra þátta  og umhverfisþátta og hefur það gert vinnuna talsvert flókna. Markmið okkar er að kynna fyrir Evrópusambandinu forgangstillögur um framboð og notkun á lífmassa," segir Hörður.

Texti: Pétur Halldórsson