Eldsvoði varð í Haukadal síðastliðinn fimmtudag þegar bálskýlið í þjóðskóginum þar brann til kaldra kola. Skýlið sem var reist árið 2017 var stórt og stæðilegt og stóð í Hákonarlundi í Haukadalsskógi. Óvíst er um endurreisn skýlisins.
Í jólablaði Fréttabréfs Skógræktarfélags Sandvíkurhrepps sem kom út síðla á nýliðnu ári er ýmislegt fróðlegt og áhugavert að finna. Meðal efnis í blaðinu er frásögn Böðvars Guðmundssonar skógfræðings sem starfaði síðast sem skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni og þjónaði skógarbændum á Suðurlandi. Böðvar lét af störfum hjá Skógræktinni 2019 en starfar áfram fyrir Skógræktarfélag Árnesinga eins og hann gerði raunar með fram störfum sínum hjá Skógræktinni einnig. Böðvar hefur frá ýmsu að segja.
Björn Bjarndal, skógarverkfræðingur og fyrrverandi verkefnastjóri hjá Skógræktinni, talar um verðmæti nytjaskóga í lífsstílskaffi Borgarbókasafnsins að Gerðubergi í Reykjavík miðvikudagskvöldið 10. febrúar kl. 20. Nauðsynlegt er að skrá sig ef fólk vill fara á staðinn og hlusta en fundurinn verður líka rafrænn og allir geta fylgst með streymi á Facebook.
Athyglisvert samspil lúpínu og birkis getur að líta á Grásteinsheiði skammt sunnan Húsavíkur þar sem land er illa farið eftir aldalanga ofbeit. Engin gróðurframvinda hefur verið á svæðinu þrátt fyrir áratuga friðun og rofið heldur áfram ef undanskilin eru svæði þar sem lúpínu var sáð í mela árið 1993. Mest er framvindan þar sem birki var gróðursett með lúpínunni. Annars staðar er lúpínan heldur farin að láta undan síga og fátt kemur í staðinn. Skógræktin hefur gefið út myndband sem sýnir þetta samspil mjög vel.
Ævagömul japönsk aðferð var notuð til að meðhöndla utanhússklæðningu úr íslensku lerki sem nú prýðir nýtt sumarhús hér á landi. Aðferðin var notuð á lerkiklæðningu frá Hallormsstað. Aðferðin felst í því að brenna eða sóta yfirborð viðarins sem gefur honum sérstakt útlit. Kolað ysta lag viðarins verndar hann gegn veðrun.