Að brenna eða sóta yfirborð timburs er ævagömul aðferð til viðarvarnar. Lerki meðhöndlað með þessum …
Að brenna eða sóta yfirborð timburs er ævagömul aðferð til viðarvarnar. Lerki meðhöndlað með þessum hætti kemur skemmtilega út á þessu íslenska orlofshúsi. Ljósmynd: Aðsend

Ævagömul japönsk aðferð var notuð til að meðhöndla utanhússklæðningu úr íslensku lerki sem nú prýðir nýtt sumarhús hér á landi. Aðferðin var notuð á lerkiklæðningu frá Hallormsstað. Aðferðin felst í því að brenna eða sóta yfirborð viðarins sem gefur honum sérstakt útlit. Kolað ysta lag viðarins verndar hann gegn veðrun.

Mestur hluti lerkiborða sem koma úr íslenskum skógi kemur af Fljótsdalshéraði. Þar vaxa víðáttumestu og elstu lerkiskógar landsins. Fyrir utan að vera fallegur viður í útliti er lerkið endingargott utanhúss. Enn sem komið er fellur þó ekki til mikið magn efnis í borð og planka. Það sem fellur til er nýtt í ýmislegt innan- sem utanhúss, t.d. utanhússklæðningu.

Á meðfylgjandi myndum má sjá fallegt nýtt sumarhús hérlendis sem klætt er með lerkiklæðningu úr Hallormsstaðaskógi. Það sem er frekar óhefðbundið er að áður en klæðningin var sett á sumarhúsið var hún brennd/sótuð og síðan burstuð með grófum bursta, ekki ólíkt því þegar veiðimenn gera gæsina klára fyrir áramótaveisluna.

Aðferð þessi er ævagömul og upphaflega japönsk og heitir „Sho Sugi Ban“. Þykir hún henta sérlega vel utanhúss þar sem kolaður viður hefur góða mótstöðu gegn veðrun. Þetta er í raun sama hugsun og þegar menn notuðu viðartjöru til að tjarga gömlu stafkirkjurnar í Noregi sem sumar eru orðnar mjög gamlar, sú elsta frá árinu 1070.

Texti: Þór Þorfinnsson
Myndir: Aðsendar
Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson