Innleiðing á stefnumótunaráætlun Sameinuðu þjóðanna um skóga fram til ársins 2030 var rædd á ársþingi alþjóðlega skógaráðsins UNFF sem nýlokið er í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Einnig var fjallað um samhengi heimsmarkmiða SÞ um skóga við sjálfbærnimarkmið samtakanna og um alþjóðlegt samstarfsnet um fjármögnun skógræktar sem ætlunin er að hafi höfuðstöðvar í Kína.
Sigríður Ævarsdóttir, skógarbóndi á Gufuá í Borgarfirði skrifar grein í Bændablaðið þar sem hún býður fólki að koma og gróðursetja í land sitt til að kolefnisjafna ferðalög sín, bílinn sinn eða einfaldlega setja niður tré til að sporna við loftslagsbreytingum.
Skógrækt með skipulag, öryggi og eldvarnir í huga verður til umfjöllunar á opinni ráðstefnu um almannavarnir og skipulag sem Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi halda á Selfossi föstudaginn 17. maí.
Huga þarf að uppgræðslu á meira en einni milljón hektara lands á Íslandi og til greina kemur að stöðva að fé sé rekið til sumarbeitar á vissum afréttarsvæðum enda nóg af grasgefnu landi í byggð sem nýta má til beitar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Árna Bragason landgræðslustjóra í Morgunblaðinu í dag.
Í dag, 10. maí, hafa Evrópumenn notað allar þær auðlindir álfunnar sem ná að endurnýja sig sjálfar á einu ári. Það sem eftir lifir ársins göngum við á auðlindirnar og rýrum þar með framtíðarhorfur afkomenda okkar.