Í dag, 10. maí, hafa Evrópumenn notað allar þær auðlindir álfunnar sem ná að endurnýja sig sjálfar á einu ári. Það sem eftir lifir ársins göngum við á auðlindirnar og rýrum þar með framtíðarhorfur afkomenda okkar.

Þetta er tíundað í skýrslu sem kom út í tilefni dagsins á vegum náttúruverndarsamtakanna World Wide Fund for Nature (WWF) og samstarfsnetsins Global Footprint Network sem vinnur að því að efla vísindi sem lúta að sjálfbærni. Skýrslan ber titilinn Living Beyond Nature's Limits

Þessi dagsetning, 10. maí, fæst með því að reikna út hver afköst lífkerfa jarðarinnar eru og deila í það með fjölda jarðarbúa. Út frá því má sjá hvaða áhrif það hefði á auðlindir jarðarinnar ef allir jarðarbúar hefðu sömu lifnaðarhætti og Evrópubúar. Jarðarbúar væru þá í dag búnir með það sem náttúran nær að endurnýja og myndu ganga á höfuðstólinn allt til áramóta. Til að standa undir þessum lifnaðarháttum þyrfti auðlindir sem næmu 2,8 sinnum auðlindum jarðarinnar.

Ráðin tiltæk en tíminn naumur

Þetta er að sjálfsögðu ósjálfbært. Sjálfbærni felst í því að nýta ekki auðlegð sína meira en svo að hún viðhaldist og rýrni ekki. Jarðarbúar eru því að ganga á auðlindir jarðarinnar hraðar en auðlindirnar ná að endurnýja sig, sérstaklega þjóðir eins og Evrópubúar og aðrar þjóðir þar sem neysla er mikil. Ráðin til að draga úr hinu mikla vistspori Evrópumanna eru tiltæk en tíminn er naumur til að bregðast við ef ekki á illa að fara.

Í skýrslunni er dagurinn í dag kallaður á ensku Overshoot Day. Við gætum kannski kallað hann yfirdráttardag á íslensku því frá og með deginum í dag er Evrópa á yfirdrætti, „leggur ekkert inn, tekur bara út“. Á þessu sjáum við að það gengi ekki upp til lengdar ef allir jarðarbúar losuðu jafnmikinn koltvísýring á mann og Evrópubúar gera að meðaltali, neyttu jafnmikillar fæðu, timburs og annarra trefja og notuðu jafnmikið pláss til athafna sinna. Eins og sakir standa nær jörðin ekki að binda allt það kolefni sem mennirnir losa, endurnýja þann lífmassa sem tapast með skógareyðingu, endurnýja fiskistofna í takt við nýtingu þeirra eða byggja upp jarðveg og líffjölbreytni í stað þess sem eyðist.

Ofnýting er ranglæti

Áhrif lifnaðarhátta Evrópubúans fela í sér ranglæti gagnvart jörðinni og öðrum jarðarbúum. Nú nota þeir tvöfalt meira af jarðargæðum en vistkerfin í Evrópu geta framleitt. Lönd Evrópusambandsins nota næstum 20 prósent af því sem lífkerfi jarðarinnar gefur jafnvel þótt mannfjöldinn í þessum löndum sé ekki nema um 7 prósent jarðarbúa. Sem fyrr segir þyrfti því 2,8 jarðir ef svo má að orði komast til að fóstra slíka lifnaðarhætti á sjálfbæran hátt en meðaltalið í heiminum öllum er 1,7 jarðir að því er segir í skýrslunni.

Ýmislegt áhugavert kemur fram í skýrslunni, meðal annars að það sé ekki nóg fyrir Evrópubúa að ná tökum á losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Huga verði að því hvað og hversu mikið við borðum, hvaðan maturinn er, skógar- og jarðvegseyðingu, ástandi vistkerfa, líffjölbreytni og fleira. Vísað er til þess að 23.-26. maí kjósi Evrópusambandsþjóðir fulltrúa sína á Evrópuþingið. Þær kosningar muni ráða því hvaða stefna verði tekin í þessum efnum og hvort takast muni að færa yfirdráttardaginn svo hann verði seinna og seinna á árinu.

Tillögur til aðgerða

En hvað er hægt að gera í málinu? Skýrsluhöfundar benda á fimm meginleiðir:

  1. Skipta yfir í sjálfbæra neyslu og fæðukerfi
  2. Að Evrópa verði kolefnishlutlaus árið 2040
  3. Endurhæfa náttúruna
  4. Vernda hafið
  5. Fjárfesta í sjálfbærri framtíð

Samtökin WWF hafa sent ákall um aðgerðir til allra leiðtoga Evrópusambandslanda og kjörinna fulltrúa þar sem lagt er til að gerður verði evrópskur sjálfbærnisáttmáli með skýrum markmiðum og aðgerðum sem gripið yrði til næstu fimm árin til að ráðast gegn loftslagsröskun, vernda náttúruna og snúa á braut sjálfbærrar þróunar. Hvatt er til þess að þessum aðgerðum verði haldið á loft í tengslum við kosningar til Evrópuþingsins, Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Texti: Pétur Halldórsson