Undirbúningur fyrir skógardaginn sem haldinn verður á sunnudag í tilefni  hálfrar aldar afmælis Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá gengur vel. Sá sögulegi atburður verður á hátíðinni að gróðursett verður í fyrsta eikar­skóg­inn á Íslandi. Eikur úr 600 metra hæð í fjöllum Hessen í Þýskalandi báru fræin sem eikurnar á Mógilsá eru sprottnar upp úr. Fyrstu eikurnar voru gróðursettar í fyrra, þrífast allar vel og eru í góðum vexti.
Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktarinnar, er sjötugur í dag. Hann hættir störfum í lok þessa mánaðar og hefur þá starfað við skógrækt með ýmsum hætti í ríflega hálfa öld. Skógræktin óskar Hallgrími til hamingju með daginn, þakkar honum vel unnin störf og óskar velfarnaðar.
Á Skógardegi Norðurlands sem  haldinn verður á laugardag í Kjarnaskógi verður nýtt útivistar- og grillsvæði á og við Birkivöll formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem meiningin er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda. 
Sitkalúsafaraldur gengur nú yfir landið í grenitrjám sem fer mjög illa með trén. Frá þessu er sagt á fréttavefnum visir.is og Stöð 2 fjallaði um það einnig í fréttum. Nefnt er sem dæmi að víða megi sjá illa farin tré á Selfossi en forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar segir að talsvert sé um lúsina í Skagafirði, á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi
Birkiryð er óvenjusnemma á ferðinni á Norðurlandi og eru skógar farnir að taka á sig haustlegan blæ. Skógarvörður segir að plágur leggist í auknum mæli á birkið og það geti haft ófyrirséð áhrif til framtíðar. Frá þessu var sagt í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins.<br>