Í ágústmánuði fóru nokkrir skógfræðinemar frá Landbúnaðarháskóla Íslands í hringferð um landið til að skoða skóga og skógartengda starfsemi. Með þeim í för var Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor og brautarstjóri skógfræði- og landgræðslubrautar við skólann. Nemendurnir unnu fróðlega skýrslu um ferðina og þar kennir margra trjáa.
Tvö verkefni hlutu á dögunum verðlaun sem veitt eru í Bandaríkjunum fyrir hönnun timburháhýsa. Vinningshafarnir deila með sér verðlaunafé sem nemur þremur milljónum dollara, hartnær 380 milljónum íslenskra króna. Fénu skal varið til áframhaldandi hönnunar og þróunar verðlaunatillagnanna tveggja, háhýsa sem rísa eiga á Manhattan í New York og í Portland í Oregon-ríki. Áskilið var að byggingar sem sendar yrðu inn í keppnina væru að minnsta kosti 24 metra háar og að meginbyggingarefni þeirra væri límtré.
Enginn einn þáttur á að skila meiru í aðgerðaráætlun stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu. Kolefnisbinding í íslenskum skógum hefur reynst heldur meiri en gert var ráð fyrir í áætlunum. Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali við Arnór Snorrason, sérfræðing á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, sem flutt var í þættinum Samfélaginu á Rás 1 í gær.
Þessa dagana eru birkifræ eru að mestu orðin þroskuð á trjám og má safna fræi fram í lok október eða lengur eftir því hvernig tíðarfar verður. Hentugasti söfnunartíminn er á þurrum sólríkum haustdögum þegar lauf er að mestu fallið af trjánum, en fræin sitja eftir. Sökum þess hversu seint voraði í ár þroskaðist birkifræ heldur seinna en oft áður. Þetta segir í frétt á vef Hekluskóga og þar eru landsmenn hvattir til að safna fræi og senda til verkefnisins.
Jón Loftsson skógræktarstjóri lætur af störfum um næstu áramót fyrir aldurs sakir. Hann hefur gegnt embætti skógræktarstjóra frá 1. janúar 1990. Í viðtali í Morgunblaðinu í dag reifar Jón stuttlega þær breytingar sem honum þykja stærstar hafa orðið á árum hans í embætti svo sem flutning Skógræktar ríkisins á Fljótsdalshérað, tilkomu landshlutaverkefna í skógrækt og það mikla starf sem fram undan er við grisjun í skógum landsins, meðal annars í Héraðsskógum sem byrjað var að gróðursetja um 1990.