Nú er besti tíminn til að safna birkifræi

Þessa dagana eru birkifræ eru að mestu orðin þroskuð á trjám og má safna fræi fram í lok október eða lengur eftir því hvernig tíðarfar verður. Hentugasti söfnunartíminn er á þurrum sólríkum haustdögum þegar lauf er að mestu fallið af trjánum, en fræin sitja eftir. Sökum þess hversu seint voraði í ár þroskaðist birkifræ heldur seinna en oft áður. Minna er af fræi á trjánum en oft áður, en þó má finna tré víða um land sem þakin eru fræi.

Verður fræjunum sem safnast dreift á hentug svæði á Hekluskógasvæðinu í haust þar sem þau munu spíra á næstu árum. Árangur sáninga á birkifræi tekur nokkur ár að koma í ljós en reynsla af slíkum sáningum á Hekluskógasvæðinu er nú þegar allgóð og má sjá töluvert af birkiplöntum á svæðum sem fræi var dreift á fyrir 6-7 árum.

Á myndinni hér að neðan eru plöntur sem uxu upp af birkifræi sem sáð var haustið 2008. Myndar birkið þéttar breiður af birki sem innan 10 ára munu bera fræ og sá sér í nágrenninu.

height= .

Hekluskógar hvetja almenning til að safna birkfræjum og koma til Hekluskóga í Gunnarsholti eða Endurvinnslunnar í móttökustöðvum í Knarrarvogi, Hraunbæ og Dalvegi, Nánari upplýsingar um fræsöfnun má finna hér: http://hekluskogar.is/frodleiksmolar-hekluskoga/sofnun-og-saning-a-birkifraei/

Texti og myndir: Hreinn Óskarsson