Rætt við Arnór Snorrason í Samfélaginu á Rás 1

Enginn einn þáttur á að skila meiru í aðgerðaráætlun stjórnvalda um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en kolefnisbinding með skógrækt og landgræðslu. Kolefnisbinding í íslenskum skógum hefur reynst heldur meiri en gert var ráð fyrir í áætlunum. Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali við Arnór Snorrason, sérfræðing á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, sem flutt var í þættinum Samfélaginu á Rás 1 í gær.

Arnór segir að skógrækt í landinu hafi haldið sjó þrátt fyrir samdráttinn eftir efnahagshrunið, ekki síst vegna þess að trén binda meira eftir því sem þau stækka. Við njótum því góðs af vexti trjáa sem gróðursett voru fyrir mörgum árum auk þess sem fyrri áætlanir hafi verið settar fram af mikilli varfærni.

Arnór segir þekkinguna hafa aukist mikið undanfarin ár og það skili sér í betri áætlunum. Um bindinguna skipti miklu máli hvað gert sé við það timbur sem tekið er úr skógunum, t.d með grisjun. Ef það kolefni sem bundið er í viðnum er notað í stað jarðefnakolefnis skipti það miklu máli. Jafnvel sé talið að mesta bindingin eigi sér stað á þann hátt.