Einn færasti sérfræðingur Noregs í hönnun og lagningu skógarvega kenndi í síðustu viku á námskeiði sem haldið var um þessi efni á Hvanneyri. Þátttakendur fengu að sjá raunveruleg dæmi um skógarvegi þegar þeir skoðuðu veglagningar í Stálpastaðaskógi í Skorradal.
Einbýlishús í Hallormsstaðaskógi hefur nú verið klætt með 25 m óköntuðm borðum úr sitkagreni. Efnið var flett úr timbri sem fékkst með grisjun tveggja lítilla reita frá 1958 og 1975. Auk veggklæðningar eru grindverk að hluta til umhverfis húsið smíðuð úr óköntuðu greni. Töluvert fellur nú til í íslenskum skógum af efni sem hentar í slíka klæðningu, einkum sitkagreni á Suður- og Vesturlandi.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir laust embætti skógræktarstjóra. Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um stöðuna. Valnefnd metur hæfni og hæfi umsækjenda og skipað verður í embættið til fimm ára. Komi til sameiningar skógræktarstarfs á vegum ríkisins eins og áformað er mun nýr skógræktarstjóri vinna að framfylgd þess verkefnis. Umsóknarfrestur er til 19. október.
Umhverfis- og auðlindaráðherra boðar til IX. umhverfisþings á Grand Hótel í Reykjavík föstudaginn 9. október og fjallar þingið að þessu sinni um umhverfis- og náttúruvernd. Susan Davies, forstjóri Scottish Natural Heritage, verður heiðursgestur þingsins, heldur erindi og svarar fyrirspurnum úr sal. Tvær málstofur verða haldnar, önnur um ferðamennsku í náttúru Íslands og hin um friðlýst svæði.
Gamlir hundrað króna seðlar eru til umræðu á Baksviði Morgunblaðsins í dag í tengslum við skógrækt í landinu. Birtar eru myndir af gömlum seðlum sem sýna mikið fjársafn renna um skarðið ofan við hamarinn Bringu í Þjórsárdal og vísað til þess að sumum finnist nóg um þann skóg sem upp er vaxinn í skarðinu. Skógarvörðurinn á Suðurlandi vill heldur miða við það gróðurríka ástand sem var í Þjórsárdal við landnám en það bágborna ástand þess sem var á fyrri hluta 20. aldar.