Skóglendi á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðan skógrækt hófst og möguleikum þar til útivistar, fræðslu og menningarstarfs fjölgað. Samhliða hefur þörfin fyrir stígagerð, grisjun og fleiri þætti sem bæta aðgengi vaxið. Þjóðskógar í umsjón Skógræktarinnar eru opnir almenningi og stefna Skógræktarinnar hefur verið að halda helstu þjóðskógunum eins aðgengilegum og hægt er. Tilteknum þjóðskógum eða hlutum þeirra er þó hlíft við raski vegna náttúruverndarsjónarmiða.
Norrænar skógrannsóknir, SNS, hafa fjármagnað sjö ný samstarfsnet um skógartengdar rannsóknir. Þar verður fjallað um margvísleg málefni svo sem fjöllitna tré, samstarf um birkikynbætur í Evrópu, aðferðir til að endurhæfa vistkerfi með sjálfbærar skógarnytjar í huga, notkun lífkola í skógrækt og fleira.
Jólatré eru afurð frá íslenskum bændum og öðrum skógareigendum og ánægjulegt er að sjá nú fréttir í Bændablaðinu af því að hlutdeild íslenskra jólatrjáa fari vaxandi en innfluttum trjám fari fækkandi. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréð.
Norrænt samstarfsnet um skógar- og gróðurelda hefur gefið út skýrslu þar sem safnað hefur verið saman ýmissi þekkingu sem ætlað er að auðvelda og flýta fyrir samstarfi og fræðslustarfi um skógarumhirðu og eldvarnir á tímum loftslagsbreytinga. Mikilvægt er talið að efla sameiginlega þekkingu og aðferðir til varnar gróðureldum, gefa út samræmdar leiðbeiningar og efla samtal um þessi efni milli landanna.
Á jólatrjáavef Skógræktarinnar er að finna ýmsar upplýsingar um jólatré, ræktun þeirra og nytjar, og þar er upplýsingasíða um jólatrjáasölu á vegum skógarbænda, skógræktarfélaga og Skógræktarinnar fyrir þessi jól. Jólatré verða seld í Vaglaskógi laugardaginn 11. desember og einnig hefur Skógræktin opið í Haukadalsskógi tvær helgar í desember fyrir fólk sem vill höggva sitt eigið jólatré. Jólamarkaðurinn Jólakötturinn verður ekki haldinn í ár á Héraði en jólatré seld í Samfélagsmiðstöðinni á Egilsstöðum 18. desember, þar á meðal tré frá Skógræktinni.