Á jólatrjáavef Skógræktarinnar er að finna ýmsar upplýsingar um jólatré, ræktun þeirra og nytjar, og þar er upplýsingasíða um jólatrjáasölu á vegum skógarbænda, skógræktarfélaga og Skógræktarinnar fyrir þessi jól. Jólatré verða seld í Vaglaskógi laugardaginn 11. desember og einnig hefur Skógræktin opið í Haukadalsskógi tvær helgar í desember fyrir fólk sem vill höggva sitt eigið jólatré. Jólamarkaðurinn Jólakötturinn verður ekki haldinn í ár á Héraði en jólatré seld í Samfélagsmiðstöðinni á Egilsstöðum 18. desember, þar á meðal tré frá Skógræktinni.

Jólatrjásala í stað Jólakattarins

Nokkur óvissa hefur verið um slíka viðburði vegna veirufaraldursins en nú hefur verið ákveðið að Jólakötturinn, jólamarkaðurinn árlegi, sem haldinn er venjulega á Valgerðarstöðum í Fellum á Héraði verði EKKI haldinn í ár. Hins vegar verða jólatré frá skógarbændum seld laugardaginn 18. desember í Samfélagsmiðstöðinni á Egilsstöðum (gamla Blómabæ).

Jólatré seld í Vaglaskógi

Ekki verður hefðbundinn jólamarkaður í Vaglaskógi eins og venja hefur verið en Skógræktin selur jólatré í starfstöðinni Vaglaskógi laugardaginn 11. desember. Opið verður frá kl. 13 til 16 og hægt að kaupa jólatré, skreytingarefni og timburafurðir úr skóginum.

Finndu þér jólatré í Haukadalsskógi

Næstu tvær helgar, dagana 11.-12. og 18.-19. desember kl. 11-16, hefur Skógræktin opið í Haukadalsskógi fyrir fólk sem vill höggva sitt eigið jólatré. Í skóginum má finna stafafuru, rauðgreni og blágreni. Einnig verða seldar jólagreinar og tröpputré. Boðið verður upp á ketilkaffi og piparkökur.

Á upplýsingasíðu Skógræktarinnar um jólatré og aðrar jólaafurðir úr skógum má finna frekari upplýsingar um hvar jólatré eru seld hjá skógarbændum og skógræktarfélögum á aðventunni. Einnig er Skógræktarfélag Íslands með jólatrjáavef á vef sínum.

Texti: Pétur Halldórsson