Jón Hilmar Kristjánsson ver meistararitgerð sína í skógfræði við náttúru- og skógadeild Landbúnaðarháskóla Íslands föstudaginn 27. mars. Ritgerðin nefnist „Áhrif blöndunar trjátegunda og gróðursetningaraðferða á lifun og vöxt 15 ára skógar á Suðurlandi“. Tengjast má vörninni rafrænt og taka þátt í umræðum.
Skógræktin innleiðir nýtt skipurit stofnunarinnar föstudaginn 20. mars 2020, sem er vorjafndægur. Nýja skipuritið endurspeglar betur nýlega sett lög um skóga og skógrækt og tekur tillit til reynslunnar sem fengin er frá því að stofnanir voru sameinaðar í Skógræktina árið 2016. Jafnframt eru loftslagsmál nú stærri þáttur í starfsemi stofnunarinnar en áður.
Vegna veirufaraldursins sem nú gengur yfir biður Skógræktin viðskiptavini og samstarfsfólk að stilla heimsóknum á starfstöðvar stofnunarinnar í hóf og nota frekar símann. Starfsfólk Skógræktarinnar er jafnframt hvatt til að nýta fjarfundabúnað sem mest og forðast eftir megni að koma saman á fundum. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um sóttvarnir á starfstöðvum og heima við.
Til þess að gera skógrækt og úrvinnslu skógarafurða að hagrænum þætti í hinum dreifðu byggðum þarf fjárfestingu í öllum þáttum skógarauðlindarinnar, ekki bara gróðursetningunni. Þetta segir skógræktarstjóri í viðtali í Austurglugganum. Hann telur eftirspurn eftir kolefnisbindingu geta opnað nýjar leiðir til að fjármagna skógrækt.
Í þriggja ára verkefnaáætlun um uppbyggingu innviða til ferðamannastaða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum renna alls 95,6 milljónir króna til verkefna í þjóðskógum árin 2020-2022. Stærstu verkefnin eru í viðhald gönguleiða á Þórsmörk og Goðalandi, en nýtt þjónustuhús og eldaskáli í Vaglaskógi hlýtur einnig drjúgan styrk.