Vegna veirufaraldursins sem nú gengur yfir biður Skógræktin viðskiptavini og samstarfsfólk að stilla heimsóknum á starfstöðvar stofnunarinnar í hóf og nota frekar símann. Starfsfólk Skógræktarinnar er jafnframt hvatt til að nýta fjarfundabúnað sem mest og forðast eftir megni að koma saman á fundum. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar um sóttvarnir á starfstöðvum og heima við.

Skógræktin hefur unnið viðbragðsáætlun vegna Covid-19 faraldursins. Sett hefur verið saman viðbragðsstjórn sem fundar eftir þörfum næstu vikurnar. Í henni sitja Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Gunnlaugur Guðjónsson fjármálastjóri, Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóga, og Björg Björnsdóttir mannauðsstjóri. Viðbragðsstjórnin vill ítreka nokkur atriði við starfsfólk Skógræktarinnar.

  • Starfsmenn eru hvattir til að fylgjast vel með eigin heilsu, fara heim ef þeir finna fyrir einkennum og hringja í síma 1700 ef þurfa þykir. Starfsmenn eiga ekki að koma til vinnu ef þeir eru veikir og er ráðlagt að vera heima frá því einkenna verður vart. Covid-19 er mest smitandi fljótlega eftir að sjúkdómseinkenna verður vart og í 10 daga frá því að sótthiti er horfinn. Starfsmaður sem mætir veikur af Covid-19 til vinnu er umsvifalaust sendur heim en í almennum sóttvarnaráðstöfunum samkvæmt sóttvarnalögum nr 19/2007, felst að hverjum þeim sem telur sig smitaðan af smitsjúkdómi er skylt að fara varlega og gera sér far um að smita ekki aðra. Einkenni hverrar veiru eða bakteríu er að finna á vefnum landlaeknir.is. Starfsmenn með undirliggjandi sjúkdóma eru sérstaklega hvattir til að gæta að sér. Allar nánari upplýsingar er að finna á vefnum covid.is.
  • Þvoðu þér reglulega um hendurnar (einkum fyrir máltíðir). Handþvottur verndar gegn beinni og óbeinni snertingu við Covid-19 veiruna. Bein snerting er meðal annars að taka í höndina á sýktum einstaklingi sem hefur snert munn sinn eða nef eða haldið fyrir vitin til að hósta eða hnerra. Óbein snerting felst í að snerta hlut sem smitaður einstaklingur hefur handleikið, til dæmis hurðarhún eða notaða bréfþurrku.
  • Notaðu bréfþurrkur til að hylja nef og munn þegar þú hnerrar eða hóstar. Úðadropar úr vitum berast aðeins stutta leið, innan við einn metra. Þeir sem standa næst einstaklingi sem sem hnerrar eða hóstar án þess að halda fyrir vitin eru í hvað mestri smithættu. Að halda fyrir munn og nef dregur úr líkum á smiti.
  • Hentu notuðum bréfþurrkum beint í ruslið. Veirur geta lifað tímabundið utan líkamans og hægt er að smitast með því að snerta hluti sem nýlega hafa mengast, svo sem vasaklúta eða bréfaþurrkur, eða með því að taka í hönd smitaðs einstaklings.
  • Haltu fyrir vitin ef bréfþurrkur eru ekki til taks. Þegar bréfþurrkur eru ekki við höndina skaltu halda fyrir nef og munn og þvo hendurnar með sápu í a.m.k. 20 sekúndur strax á eftir eða hnerra á handlegginn eða í olnbogabótina til að hindra dreifingu veiranna.
  • Notuðum bréfþurrkum skal henda strax í lokaðar fötur sem í er plastpoki. Fjölga þarf ruslafötum tímabundið. Loka þarf plastpokum strax. Þetta á við á heimilum því ekki er gert ráð fyrir að sjúkir einstaklingar mæti á vinnustað.
  • Covid-19 veirum er eytt af yfirborði og úr umhverfi með:
    • Hreinsun með vatni og sápu
    • Hitun í 40°C í 15 mínútur; 80°C í 3 mín; 90°C í 1 mínútu
    • Spritti (a.m.k. 40% styrk)
    • Ísóprópanóli ( a.m.k. 30% styrk)
    • Klórlausnum (a.m.k. 200 ppm styrk)
    • Joðefnum (a.m.k. 75 ppm styrk)
  • Sóttvarnabúnaður sem gott er að eiga auk hefðbundinnar sápu:
    • Bréfþurrkur og e.t.v. fleiri ruslafötur sem eru með loki
    • Handspritt
    • Spritt til hreinsunar á yfirborði, svo sem símum og hurðarhúnum
    • Einnota hanskar fyrir ræstingu
    • Æskilegt er að starfsfólk beri ekki hringa
  • Fulltrúar starfstöðva Skógræktarinnar hafa verið beðnir að yfirfara birgðastöðu og tryggja nægar birgðir af sóttvarnabúnaði (sjá hér að ofan). Einnig er lagt til að á öllum starfstöðvum beri einhver starfsmanna ábyrgð á því að þrífa af hurðarhúnum og sambærilegum stöðum með hreinlætisklútum tvisvar til þrisvar á dag.
  • Tilkynning hefur verið birt á vef Skógræktarinnar um að viðskiptavinir og samstarfsfólk stilli heimsóknum í hóf og nýti sér frekar tölvutæknina og síma. Þá eru amtmenn einnig beðnir um að senda skógarbændum sömu skilaboð.
  • Starfsfólk er hvatt til að stilla fundahöldum mjög í hóf og nýta fjarfundabúnað sem mest. Þetta á einnig við um fundi erlendis. Þá ætti ekki að sækja nema brýn nauðsyn beri til.
  • Sviðstjóra þjóðskóga hefur verið falið að skoða sérstaklega stöðu starfsnema sem áætlað er að komi til starfa hjá Skógræktinni í sumar, í samstarfi við skógarverði og sviðstjóra rannsóknarsviðs. Ljóst er að til þess getur komið að skortur verði á sumarstarfsmönnum og brýnt að undirbúa þá sviðsmynd.
  • Nánari upplýsingar á covid.is
Sett á vef: Pétur Halldórsson