Ef sumarið heldur áfram að vera sæmilega hlýtt gætu sumar trjátegundir vaxið á annan metra í sumar og jafnvel gæti orðið metvöxtur hjá ösp og fleiri tegundum. Þetta sagði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í viðtali í fréttum Bylgjunnar í gær.
Tíu manna lið Skógræktarinnar kom í mark síðdegis á föstudag í hjólreiðakeppninni Wow Cyclothon eftir að hafa hjólað í 45 og hálfa klukkustund. Liðið endaði í 65.-68. sæti af 92 liðum í B-flokki keppninnar. Skógræktarstjóri hjólaði á undan í mark á reiðhjóli fyrsta skógræktarstjórans, Agners Kofoed-Hansens, sem líklega er af árgerð 1907.
Hjónin Reinhard Reinhardsson og Karólína Inga Guðlaugsdóttir hafa með atorku og útsjónarsemi ræktað skóg við hús sitt í Selási í Reykjavík þar sem áður var aðeins örfoka melur. Fyrir þetta starf sitt voru þau útnefnd Reykvíkingar ársins 2016 og hlutu um leið þann heiður að opna veiðitímabilið í Elliðaám ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í gærmorgun. 
Skógræktin óskar að ráða til sín fagmálastjóra. Leitað er að öflugum einstaklingi sem hefur víðtæka þekkingu á skógrækt innanlands og utan og er tilbúinn til að takast á við umfangsmikil verkefni í krefjandi og breytilegu umhverfi. Fagmálastjóri heyrir beint undir skógræktarstjóra og verður hluti af framkvæmdaráði stofnunarinnar.
Skógræktin óskar eftir að ráða sviðstjóra á skógarauðlindasviði stofnunarinnar. Skógarauðlindasvið sinnir meðal annars verkefnum tengdum rekstri þjóðskóganna og skógrækt á lögbýlum.