Flugbjörgunasveitin í Reykjavík sótti jólatré í Þjórsárdalsskóg fyrir jólatrjáasölu sína sem fram fer í húsakynnum sveitarinnar við Flugvallarveg í Reykjavík. Metaðsókn var að jólamarkaði Skógræktarinnar í Vaglaskógi um helgina og gestir sem komu í Haukadalsskóg til að sækja sér jólatré fóru líka glaðir heim. Um næstu helgi verður árlegi markaðurinn Jólakötturinn á Héraði og fólk getur komið og fellt eigið jólatré í Selskógi Skorradal og Haukadalsskógi.
Frá 1. desember er opið í starfstöð Skógræktarinnar á Vöglum í Vaglaskógi fyrir fólk sem vill koma og kaupa sér jólatré og greinar. Hinn árlegi jólamarkaður Skógræktarinnar í Vaglaskógi verður líka haldinn þar laugardaginn 7. desember frá kl. 13 til 17.
Fjölmenni sótti fund á Vopnafirði nýverið þar sem meðal annars var kynnt sú vinna sem nú fer fram að lands- og landshlutaáætlunum í skógrækt. Rædd voru ýmis tækifæri sem nú blasa við á sviði skógræktar, meðal annars skógrækt til kolefnisbindingar sem gæti leitt til þess að hentugt skógræktarland yrði eftirsóttara og verðmætara.
Framkvæmdastjóri Landssamtaka skógareigenda, Hlynur Gauti Sigurðsson, fjallar um helstu trjátegundir sem notaðar eru í skógrækt á Íslandi í grein sem birtist í Bændablaðinu 21. nóvember. Þar bendir hann meðal annars á þann góða eiginleika gróðurs að geta ljóstillífað og tekið kolefni úr andrúmsloftinu. Tré séu stærst allra plöntutegunda og þar af leiðandi kolefnisþyrstust, eins og Hlynur orðar það. Tré séu því eitt þeirra mörgu verkfæra sem nota megi gegn loftslagsvánni og þau beri öll að nota.
Á hverju ári standa margir Íslendingar frammi fyrir þeirri spurningu hvort kaupa eigi lifandi jólatré í stofuna eða láta slag standa og kaupa margnota tré sem enst getur árum saman. Hlýtur það ekki að vera betra fyrir budduna og jafnvel umhverfið líka, jafnvel þótt gervitréð sé úr plasti og framleitt hinum megin á hnettinum? Ekki er allt sem sýnist í þessum efnum. Umhverfisálagið af plasttrjánum er margfalt á við lifandi tré, ekki síst ef lifandi trén eru höggvin í nálægum skógi.