Ýmis tækifæri á sviði skógræktar voru kynnt á íbúafundi Vopnafjarðarhrepps. Meðal þess sem unnið er …
Ýmis tækifæri á sviði skógræktar voru kynnt á íbúafundi Vopnafjarðarhrepps. Meðal þess sem unnið er að á svæðinu er skógrækt með fram vatnsföllum til að efla lífríkið, ekki síst fyrir laxinn í veiðiánum. Ljósmynd: Else Möller.

Fjölmenni sótti fund á Vopnafirði nýverið þar sem meðal annars var kynnt sú vinna sem nú fer fram að lands- og landshlutaáætlunum í skógrækt. Rædd voru ýmis tækifæri sem nú blasa við á sviði skógræktar, meðal annars skógrækt til kolefnisbindingar sem gæti leitt til þess að hentugt skógræktarland yrði eftirsóttara og verðmætara.

Fundurinn var vel sóttur. Hér hlýðir fundarfólk á Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra sem sagði m.a. frá vaxandi tækifærum í kolefnisbindingu með skógrækt. Ljósmynd: Else MöllerFundurinn fór fram þriðjudaginn 26. nóvember og hann sóttu um 25 manns. Fyrstur talaði Þór Steinarsson sveitarstjóri og greindi frá nokkrum af þeim hugmyndum sem nú væru uppi í  skógræktarmálum hjá Vopnafjarðarhreppi. Því næst kynnti Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri þá vinnu sem nú er í gangi með landsáætlun í skógrækt og landshlutaáætlun. Þröstur talaði meðal annars um mikilvægi kolefnisbindingar með skógrækt og hvaða tegundir hentuðu best í því sambandi en líka aðra aðferðir til að binda kolefni eins og landgræðslu, endurheimt votlendis og niðurdælingu á koltvísýringi í basaltlög neðanjarðar.

Tækifæri í kolefnisbindingu

Skógræktarstjóri gerði líka að umtalsefni hverjir það yrðu sem myndu rækta skóg í framtíðinni. Að mati hans yrði slíkt ekki aðeins á höndum Skógræktarinnar, nytjaskógræktarverkefna á lögbýlum eða skógræktarfélaga í landinu. Einkaaðilar sýndu því nú vaxandi áhuga að leggja fjármuni í skógræktarverkefni, ekki síst til kolefnisbindingar, og sömuleiðis væri vaxandi áhugi meðal fjársterkra aðila. Dæmi um slíkt væri breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe sem hefur keypt allmargar jarðir hérlendis, þar á meðal margar í Vopnafirði, og hefur látið að því liggja að hann vilji meðal annars rækta skóg.

Þröstur nefndi einnig loftslagstengda fjármögnun skógræktarverkefna þar sem menn sæju fyrir sér að bindinguna sem hlytist af sérstökum kolefnisskógum mætti nota á móti losun. Fyrirtæki sem væri skylt að telja fram losunarheimildir á móti losun sinni gætu búið sér til kolefniseiningar með því að leggja fé í skógrækt og nota svo einingarnar í kolefnisbókhaldi sínu. Til þess að þetta yrði kleift hér á landi þyrfti að koma upp viðurkenndu kerfi til að búa til og sýsla með slíkar kolefniseiningar og bak við slíkt kerfi þyrfti að vera viðurkennd vottun. Þröstur segir að Skógræktin hafi haft frumkvæði að því að móta reglur um slíkt kerfi og nú sé unnið að því að koma því í kring, setja upp kerfi til að skrá kolefniseiningarnar og fá þær vottaðar. Hann nefndi að mögulega myndi þessi þróun leiða til þess að hentugt skógræktarland yrði eftirsóttara og þar með verðmætara. Vakti málflutningur skógræktarstjóra mikinn áhuga og spurðu fundarmenn margra spurninga um þessi efni.

Talsverð skógrækt er nú þegar stunduð í Vopnafirði og þar er nokkuð um náttúrlegt birkikjarr. Mynd: Else MöllerSex áa verkefnið

Else Möller, skógfræðingur hjá Vopnafjarðarhreppi, kynnti að því búnu stöðu skógræktarmála á Vopnafirði og nokkrar staðreyndir þar að lútandi. Þar kom meðal annars fram að nú hafa verið gerðir samningar við Skógræktina um skógrækt á níu lögbýlum í Vopnafirði, alls á hartnær 800 hekturum. Fram kom hjá Else að talsvert skóglendi væri nú þegar að finna í Vopnafirði, Auk 449 hektara af ræktuðu skóglendi undir 400 metra hæð yfir sjó yxi náttúrulegt birki á 552 hekturum. Hún sagði frá starfsemi skógræktar- og landgræðslufélagsins Landbótar, samstarfi Vopnafjarðarhrepps við Kolvið um ræktun Kolviðarskóga í Vopnafirði og fleira.

Loks kynnti Else þróunarverkefni sem nú er unnið að ásamt veiðifélaginu Streng um ræktun skóglendis með fram sex ám sem renna um jarðir í eigu Ratcliffes. Verkefnið kallast á ensku The Six Rivers Project sem myndi útleggjast sem „Sex áa verkefnið“ á íslensku. Markmið þess eru að stöðva jarðvegseyðingu, bæta fæðuframboð fyrir lífverur í ánum, ekki síst laxinn, og að auka líffræðilega fjölbreytni og sjálfbærni þessara landsvæða.

Ýmis önnur mál voru rædd undir lok fundarins svo sem áskorun vegna lausagöngu búfjár, girðingamál og kostnað vegna þeirra. Komið var inn á þann rétt landeigenda að rækta skóg á landi sínu svo fremi fylgt væri skógræktarlögum og aðalskipulagi sveitarfélagsins en einnig var rætt um þá skyldu skógræktarfólks að virða útsýni, staðargildi, fornleifar, veghelgunarsvæði og fleira.

Else Möller segir að gott hafi verið fyrir Vopnfirðinga að fá tækifæri til að ræða ýmis mál sem snerta skógrækt og fá upplýsingar um það sem er í gangi í þeim efnum hjá Skógræktinni og í sveitarfélaginu. Upplýsing og gegnsæi sé alltaf til góðs. Síðan sé það hvers og eins að ákveða hvort hann vilji taka þátt í skógræktarstarfi eða ekki.

Texti: Pétur Halldórsson