Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, leiðbeinir hér um meðhöndlun fræja af greni og stafafuru, hvernig fræjum er náð úr könglunum með klengingu og hvernig fólk getur borið sig að við sáningu fræjanna beint í jörð.

Fræ sem þroskast á furu- og grenitrjám á Íslandi eru verðmæt fyrir margra hluta sakir. Þau þroskast á trjám sem hafa náð að vaxa upp og þroskast við íslenskar aðstæður en veikari einstaklingar, sem voru síður aðlagaðir aðstæðum hér, hafa flokkast frá. Slík þróun er aðferð náttúrunnar til að viðkomandi tegund komist af á tilteknum stað eða svæði. Með því að nota fræ af íslenskum trjám er því líklegt að fá megi góðan efnivið til að rækta trjáplöntur til skógræktar í gróðrarstöðvum eða til að sá fræinu beint í jörð. Leiðbeiningar um söfnun greni- og furufræja er að finna í tveimur öðrum fræðslumyndböndum Skógræktarinnar.
Í þessu myndbandi fá áhorfendur að sjá hvernig má klengja má köngla greni- og furutrjáa með því að nota sérstaka þurrkara, bakarofna, ylinn frá miðstöðvarofni eða einfaldlega stofuhita og þolinmæði. Til að opna könglana sem eru tregastir til má nota heitt vatn í stutta stund og þurrka síðan könglana. Aðalsteinn lýsir þessu öllu saman skilmerkilega og sýnir líka hvernig hann sáir fræi barrtrjáa beint í jörð. Þar þarf að huga vel að fræseti og að reyna að hindra að fræið fjúki í burtu eða frostlyfting fyrirkomi trjáplöntunum ungum.