Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, leiðbeinir hér um fræsöfnun af grenitrjám, bæði sitkagreni og rauðgreni.
Fræ sem þroskast á grenitrjám á Íslandi eru verðmæt fyrir margra hluta sakir. Þau þroskast á trjám sem hafa náð að vaxa upp og þroskast við íslenskar aðstæður en veikari einstaklingar, sem voru síður aðlagaðir aðstæðum hér, hafa flokkast frá. Slík þróun er aðferð náttúrunnar til að viðkomandi tegund komist af á tilteknum stað eða svæði. Með því að nota fræ af íslenskum grenitrjám er því líklegt að fá megi góðan efnivið til að rækta trjáplöntur til skógræktar í gróðrarstöðvum eða til að sá fræinu beint í jörð. Best er að safna fræjum þar sem könglar eru á mörgum trjám. Ef svo virðist sem stór hluti trjánna í viðkomandi reit hafi blómgast er það vísbending um að erfðafjölbreytileiki í fræjum trjánna sé mikill og það er líka vísbending um góðan efnivið.
Í þessu myndbandi fá áhorfendur að sjá muninn á könglum sitkagrenis, sitkabastarðs og rauðgrenis og gefnar eru hagnýtar leiðbeiningar um söfnun könglanna og meðhöndlun að söfnun lokinni. Einnig gefur myndbandið góða hugmynd um hvernig könglarnir líta út þegar þeir eru tilbúnir til tínslu.