Í stóra gróðurhúsinu á Vöglum í Fnjóskadal, fræhöllinni svokölluðu, er kominn danskur sérfræðingur í ágræðslu trjáa Tomas Kunø. Heimsókn hans er liður í því starfi Brynjars Skúlasonar skógfræðings að kynbæta fjallaþin og búa til yrki sem gefur falleg jólatré. Brynjar stundar doktorsnám í skógerfðafræði og viðfangsefnið er þinur. Valdir hafa verið fallegir fjallaþinir á nokkrum stöðum á Íslandi og af þeim klipptir sprotar sem nú á að græða á grunnstofna eða fósturtré sömu tegundar. Trén verða svo ræktuð upp í gróðurhúsi og fyrsta fræuppskeran gæti komið eftir fimm ár eða svo ef vel gengur.  Fyrsta uppskera kynbættra jólatrjáa af fjallaþini gæti þá orðið eftir 15-20 ár og þá gæti íslenskur fjallaþinur farið að keppa fyrir alvöru við innfluttan nordmannsþin.

Í fræhöllinni á Vöglum standa nú þegar úrvalstré af evrópulerki og rússalerki sem víxluð eru saman til að framleiða fræ af blendingsyrkinu Hrym sem miklar vonir eru bundnar í skógrækt hérlendis. Til stendur að fjölga þessum trjám í fræhöllinni til að auka fræframleiðsluna og þar með framboðið á Hrym til gróðursetningar. Þennan dag er einnig verið að ágræða sprota sem teknir hafa verið af eldri trjánum í húsinu. Þeir verða græddir á grunnstofna af rússalerki undir stjórn Þrastar Eysteinssonar skógerfðafræðings sem hefur stýrt lerkikynbótunum frá upphafi.
Lerkið er móttækilegra fyrir ágræðslu en þinurinn og afföll yfirleitt mun minni þegar grætt er á lerki en þin.   

Kynbótastarf sem þetta er mikilvægt fyrir þróun skógræktar sem arðbærrar atvinnugreinar á Íslandi.

Í myndbandinu er aðferðunum við ágræðsluna lýst í máli og myndum.